145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

uppbygging á Bakka.

[15:29]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan deili ég þessum áhyggjum og mér er fullkunnugt um hversu aðkallandi það er að leysa þetta mál hratt og örugglega. Það er það sem verið er að vinna að á vettvangi ríkisstjórnar. Orðstírinn er í húfi. Við finnum strax að það eru spurningar sem okkar fólk, sem er að markaðssetja Ísland sem fjárfestingarkost til að mynda, er að fá sem sýna að það mætti ætla strax einhver áhrif af þessu. Við viljum að sjálfsögðu vera þannig ríki og erum búin að undirbúa stjórnsýsluna og vinna að því um langt árabil að þegar sett eru hér lög, þegar skrifað er undir samninga standa þeir. Ég get fullvissað hv. þingmann um að unnið er að því að svo megi einnig verða í þessu. Það er hins vegar þannig að úrskurðarnefndin er sjálfstæð í sínum störfum, ekki síst vegna til að mynda staðfestingar fyrrverandi ríkisstjórnar, (Forseti hringir.) þeirrar sem hv. þingmaður sat í, (Forseti hringir.) á hinum svokallaða Árósasamningi sem hægt er að rekja þetta mál núna á þessu stigi til. Málið (Forseti hringir.) er snúið, en verið er að vinna að lausn á því.