145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

fjárveitingar til skáldahúsanna á Akureyri.

[15:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og vil segja að það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er ekki einhver ein einföld regla hér undirliggjandi. Vandinn er kannski sá að það er ekkert sem í sjálfu sér kemur í veg fyrir að t.d. sveitarfélag eða einstaklingar, við skulum halda okkur við sveitarfélögin, geti tekið ákvörðun um að setja af stað safnastarfsemi, t.d. skáldahús til að halda á lofti minningu skálds sem búið hefur í viðkomandi sveitarfélagið, án þess að það þurfi að biðja ríkið leyfis um slíkt. Það er hægt að fara af stað með slíkt verkefni. Þá kemur síðan upp þessi spurning: Hafi sveitarfélag ákveðið að setja slíkt verkefni af stað, myndast þar með sjálfkrafa kvöð hjá ríkinu að mæta sveitarfélaginu með fjárframlögum? Það er auðvitað undirliggjandi spurning hér. Þetta á reyndar við um fleiri svona tilvik, þ.e. safnastarfsemi. Við höfum áður rætt í þinginu t.d. málefni Tónlistarsafnsins í Kópavogi þar sem undirliggjandi er reyndar aðkoma ríkisins. Kópavogsbær hefur ekki verið sáttur við þá aðkomu. Það eru fjölmörg dæmi um þetta. Ég verð að játa það að meðan ekki er einhver ein regla þarna undir er svolítið erfitt að fara að segja að þetta skáld eða hitt skáldið, að minning viðkomandi einstaklings sé slík að rétt sé að ríkið komi að. Það er voðalega erfitt að gera upp á milli skáldanna hvað þetta varðar. Ég get alveg fallist á það með hv. þingmanni að það er svolítið bagalegt að ekki skuli vera regla um þetta en á móti kemur að ef sveitarfélagið ákveður að fara af stað með skáldahús t.d. væri það íhlutamikið að fara að banna slíkt. Þessi staða getur alltaf komið upp. En ég er til viðræðna reiðubúinn alla tíð og mundi þá auðvitað þiggja þennan kaffibolla hér á eftir ef því er að skipta en ég er ekki viss um að það leysi akkúrat þann þátt málsins sem ég lýsti.