145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[15:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil líka þakka fyrir gott samstarf í þessu máli og þær mikilvægu breytingar sem nefndin leggur til. Þær breytingar eru forsenda þess að ég og við getum stutt málið. Við gerum það vegna þess að breytingarnar eru góðar og samstarfið hefur verið mjög gott. Mér finnst ástæða til að nefna að þegar kemur að svona málum, hlerunum og sambærilegum hlutum sem yfirvöld standa að, er alltaf mjög hættulegt þegar framkvæmdin verður ólík því sem löggjafinn ætlaði sér. Þess vegna er afskaplega mikilvægt að þegar fram líða stundir höfum við meðvitund um hvernig framkvæmdin á þessum lögum verður eftir þessar breytingar. Það eru öfl í samfélaginu, innan kerfisins, sem hafa tilhneigingu til að útvíkka heimildir sínar, til að nýta allar heimildir sínar, og krefjast sífellt frekari heimilda. Þessi þrýstingur mun aldrei hverfa. Þess vegna er mikilvægt að við verðum alltaf á varðbergi gagnvart honum. En ég fagna því að þetta mál ber öll þess merki að það er alla vega enn tilfellið að löggjafinn er reiðubúinn til þess.