145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[15:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja mikið um þessa tillögu sem er flutt af atvinnuveganefnd. Hún er flutt af illri nauðsyn í raun og veru, það kom fram hjá framsögumanni málsins. Þetta snýst um þær 2 þúsundir lesta af makríl sem fráteknar eru fyrir smábáta í landinu til að bjóða í eða fá auknar aflaheimildir. Í lögunum er kveðið á um, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að verðið sé 8 kr. fyrir síld og makríl. Miðað við ástandið í dag virðist það vera of hátt verð og smábátasjómenn treysta sér ekki til að kaupa þetta á því verði. Það er m.a. út af verðfalli á afurðinni, makríl, sem sjómenn fá 50–60 kr. fyrir. Inn í þetta blandast mikilvægi þess að við Íslendingar veiðum sem mest af þeim makríl sem við höfum úthlutað og við ætlum að veiða af þeim sameiginlega stofni og sýna þar með upp á framtíðina veiðireynslu okkar.

Þess vegna m.a. er ég samþykkur þeirri leið að lækka veiðigjaldið til samræmis við það sem er í veiðigjaldinu, eða tæpar 3 kr. Þetta sýnir okkur líka e.t.v. að erfitt er að binda í lög nákvæmlega hvað skal selja hlutinn á. En Alþingi getur ekki afsalað sér þeim rétti og ráðherra getur ekki gert það nema farin sé sú leið sem ég nefndi í sama máli fyrir ári síðan. Hún er að þessar 2 þúsund lestir, sem litlar eru, séu hreinlega á uppboði, ef svo má að orði komast, boðnar út, og að sjómenn, í þessu tilviki smábátasjómenn, bjóði það í aflaheimildirnar sem þeir treysta sér til og þannig fari þetta fram. Ef það kemur þannig fram vegna ástandsins í heimsmálum eða á heimsmarkaði hvað varðar þessa afurð að menn treysta sér ekki til að bjóða nema 2 eða 3 kr. fyrir þá kemur það í ljós. Nákvæmlega eins væri það þá ef markaðurinn hressist við og eftirspurn yrði meiri, þá mundu menn bjóða hærri upphæð. En þessi leið var því miður ekki farin í fyrra.

Í umfjöllun um málið í nefndinni nefndi ég þetta aftur. Þar kom fram, sem ég tek alveg undir og er rétt, að hinn skammi tími sem við höfum dugar ekki til að útfæra almennilega tillögur hvað það varðar. Það er m.a. vegna þess hvaða árstími er. Við þurfum ekki að fá nema nokkrar lægðir upp að landinu sem gera það að verkum að smábátasjómenn geta ekki farið á sjó. Tíminn líður og allt í einu verður makríllinn ekki veiðanlegur fyrir smábáta. Meðal annars þess vegna styð ég þær breytingar sem nefndin flytur, þótt ég hafi ekki verið staddur á fundinum þegar málið var tekið út. Ég lýsi því yfir að við í Samfylkingunni styðjum þessa leið.

Ég ítreka, og hefði viljað láta það koma fram, geri það hér með ræðu, að ég tel að við ættum að byrja á því skrefi að taka þessar 2 þúsund lestir og eftir atvikum meira þegar fram líða stundir og hafa það á þeim markaði sem ég nefndi í upphafi máls míns, á einhvers konar kvótaþingi þar sem aðilar bjóða í. Það hefði verið leið sem hefði leyst þetta mál algjörlega.

Ég árétta það sem ég sagði áður: Tíminn er skammur. Það er ekki hægt að útfæra þessa reglu svo vel sé með svona stuttum fyrirvara. Málið er brýnt að taka í gegn. Smábátasjómenn bíða eftir því að geta leigt til sín þessar heimildir. Við verðum að játa það núna að markaðsástæður eru þannig að menn vilja ekki borga 8 kr. fyrir það heldur kannski þær 2,78 kr., ef ég man rétt, sem er veiðigjald fyrir makríl í dag. Rétt er líka að hafa í huga að það er veiðigjald sem er reiknað út frá afkomunni á makrílveiðum fyrir tveimur árum síðan. Það er hinn þáttur málsins sem sýnir gallann við það hvernig þetta er leyst, hvernig þetta mál hefur þróast.

Uppboðið hefði leyst þetta og verið farsæl leið. Ég heyri að hæstv. forseti vill bera þetta undir atkvæði fljótlega og ætla þess vegna ekki að hafa fleiri orð um málið að þessu sinni.