145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[15:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er gaman að taka þátt í umræðum við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur vegna þess að hún er sérstaklega glögg varðandi fiskveiðar. En almennt er hún líka mjög vel læs á stjórnmál. Mér finnst yfirlýsing sem hv. þingmaður gaf hér vera mjög marktæk, ekki síst til komandi kosninga. Hv. þingmaður sagði að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði nú til skoðunar að styðja að einhverju leyti upptöku útboðsleiðar, þó án þess að allur afli væri settur í útboð. Það er mjög jákvætt fyrir þá línu sem ég hef í pólitíkinni. Mér sýnist að staðan sé þannig að stefna eigi að því að mynda hér eftir kosningar umbótastjórn fjögurra flokka. Mér finnst að með þessari stefnubreytingu hjá VG sé einum steini rutt úr vegi þess.

Ég kem aðallega til þess að ræða makríl. Hv. þm. Kristján L. Möller reifaði hér áðan að það þyrfti ekki nema eitt óveður til þess að vertíðin væri ónýt hjá þessum smábátum. Við horfum til þess að stórútgerðin fær gríðarlega stóran part af makrílkvótanum úthlutað nánast ókeypis, ég segi það og miða þá við Færeyjar. Þessir litlu bátar skipta miklu máli fyrir plássin. Mér finnst að við eigum að gera allt sem við getum til þess að lyfta undir þá. Ég hef áður sagt að ég tel að á meðan núverandi stjórnkerfi fiskveiða er óbreytt eigi smábátarnir að fá að veiða markrílinn ókeypis.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hún það ekki koma til greina að óbreyttu stjórnkerfi fiskveiða þegar stórútgerðin hrammsar til sín nánast allan makrílkvótann? Hvað segir hennar meyra og blíða hjarta gagnvart þessari hugsanlegu draumsýn gagnvart frjálsum veiðum smábáta á þessari fisktegund?