145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:31]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki með neinar beinar spurningar eða annað. Ég vil bara fagna umfjölluninni sem nefndin tók um málefni dýravelferðar á fundum sínum og fagna þeirri niðurstöðu sem hún komst að. Í umræðunni fannst mér svolítið skorta á það sem mikilvægast er að þegar menn brjóta ítrekað á velferð dýra á að vera númer eitt, tvö og þrjú að fjarlægja dýrin úr umsjá þeirra. Ég er mjög ánægð að heyra að það er komið þarna inn. En ég hef líka áhyggjur af því að meðan á umfjöllun málsins stóð fékk ég ábendingar um aðila sem fá ekki neinar gripagreiðslur út á þann búfénað sem þeir halda, eru ekki í gæðastýringu, og að þeir séu að brjóta af sér. Þá er erfitt fyrir eftirlitsaðila að taka á þeim málum og ráðaleysi eftirlitsaðila er því miður mjög sýnilegt í þeim dæmum. Ég vildi beina því til þingmannsins hvort það hafi eitthvað verið rætt að gera úrbætur á því fyrir eftirlitsaðilana, þ.e. að taka á þeim sem ekki eru með gæðastýringar eða beingreiðslur.