145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Nú er það einfaldlega þannig, eins og ég hef stundum sagt, að það er erfitt að svipta menn greiðslum sem þeir fá hvort sem er ekki. Ég vil hins vegar taka aftur fram að Matvælastofnun hefur margar heimildir og mjög íþyngjandi, hvort sem þær eru alla leið upp til vörslusviptinga, til sektargreiðslna, sem í sjálfu sér geta endurspeglað nánast allt tekjustreymi viðkomandi bónda eða bús. En það er erfitt að bæta í tækjasafn Matvælastofnunar til þvingunarúrræða sviptingu úr greiðslu í búgreinum sem ekki hafa notið neinna greiðslna eða fengið slíkar greiðslur sem um ræðir. Svarið við spurningunni hvort hv. atvinnuveganefnd hafi rætt það er nei. Við ræddum ekki sérstaklega að fjölga þeim úrræðum vegna þess að það er ekki hægt að svipta einhvern greiðslum sem hvort sem er fær engar.