145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Já, hér er komið að lokaumræðu, 3. umr., um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, öðru nafni búvörusamningar eða búnaðarlagasamningur. Mál nr. 680 á þingskjali 1108, með öllum síðari breytingum og nefndarálitum sem hafa komið fram.

Ég vil fyrst skýra frá þeim tveimur breytingartillögum sem ég flyt nú við 3. umr. sem er þá nefndarálit og breytingartillaga frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar sem ég skipa.

Fyrsti minni hluti leggur til að farið verði að tillögum Samkeppniseftirlitsins um að fella úr gildi undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og að gefinn verði rúmur frestur til þess eða til 1. janúar 2020. Með gildistöku fram í tímann vill 1. minni hluti koma til móts við sjónarmið um að langan aðdraganda þurfi að slíkri breytingu. Þetta sjónarmið hefur komið fram við meðferð málsins í nefndinni og í umræðum í þingsal.

Fyrsti minni hluti ítrekar að hann telur það afleita stöðu fyrir Alþingi að hafa svo takmarkaða möguleika til að gera breytingar á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. 1. minni hluti leggur því til að ráðherra leggi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um samningsmarkmið ríkisins um endurskoðun búvörusamninga og búnaðarlagasamnings eigi síðar en í lok janúar 2019. Þau samningsmarkmið sæti þinglegri meðferð og við þau yrði stuðst í viðræðum við bændur og í fyrirhugaðri endurskoðun.

Í áliti 1. minni hluta við 2. umr. málsins kom fram að ekki hefði tekist að fá upplýsingar um tolltekjur af innfluttum landbúnaðarvörum. Í umfjöllun í nefndinni eftir 2. umr. bárust þær upplýsingar og má sjá þær í töflu í fylgiskjali með áliti þessu.

Hér lýkur tilvitnun minni í nefndarálitið sem ég legg hér fram við 3. umr.

Fyrir það fyrsta varðandi breytingartillögu um undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum er hér flutt aftur tillaga um það, en komið er til móts við þau sjónarmið sem hafa komið m.a. frá nokkrum aðilum ríkisstjórnarflokkanna um að lengri aðdraganda þurfi að því. Hér er fallist á það og gefinn rúmlega þriggja ára aðlögunarfrestur að því máli.

Segja má að það sé mjög í líkingu við það þegar við tókum upp tilskipun Evrópusambandsins, svokallaða raforkutilskipun, tek það sem dæmi að við þurftum í tví- eða þrígang að breyta lögum varðandi Orkuveitu Reykjavíkur um fullan aðskilnað á framleiðslu og dreifingu. En eins og ég segi er hér komið til móts við þetta sjónarmið. Ég hef áður sagt og tel það enn að ég hefði talið það mjög gott eða smart af Bændasamtökunum og Mjólkursamsölunni að leggja þetta sjálf til. Ég hef sagt að vafalaust hafi það verið rétt ákvörðun á undirbúningstímanum að hafa undanþágu fyrir mjólkuriðnaðinn gagnvart samkeppnislögum meðan breytingar áttu sér stað. En ég er ekki sammála því að það þurfi um aldur og ævi. Þess vegna er tillaga nú flutt. Og ég ítreka enn einu sinni að sú tillaga sem ég flyt er tillaga frá Samkeppnisstofnun sem nefndin öll bað um, þar með talinn meiri hluti nefndarinnar. Ég spyr: Til hvers var óskað eftir þessari tillögu ef ekkert átti að gera með hana?

Í öðru lagi flyt ég tillögu sem ég geri grein fyrir í nefndaráliti og vil útskýra aðeins frekar og segja: Það er óheppileg staða, svo ég noti það orð, fyrir Alþingi að standa í raun og veru fyrir gerðum hlut milli nokkurra ráðherra í ríkisstjórn, sama hver ríkisstjórnin er, og Bændasamtakanna um búvörusamning. Þess vegna er tillaga flutt um að sá ráðherra sem fer með landbúnaðarmál flytji Alþingi þingsályktunartillögu þar sem samningsmarkmið komi fram, og alþingismenn geti rætt hana í tveimur umræðum, og fari til nefndar. Og að lokum annaðhvort samþykkt þau samningsmarkmið sem ráðherrann leggur fram eða tekið er tillit til sjónarmiða sem koma inn og það séu samningsmarkmið sem fulltrúar ríkisvaldsins leggja af stað með í viðræðum við bændur. Að sjálfsögðu verður samningurinn alltaf milli þessara tveggja aðila. Það getur vel verið að út úr því komi ef til vill eitthvað annað en þar er lagt upp með. En Alþingi hefur þá alla vega fengið aðstöðu til að ræða þessi mál áður. Ég tek sem dæmi núna: Hér stöndum við frammi fyrir gerðum hlut gagnvart stuðningi við sauðfjárrækt í landinu. Alþingi getur engu breytt miðað við þær upplýsingar sem nú eru komnar fram sem eru grafalvarlegar og að mínu mati keyra eiginlega þessi samningsmarkmið út af borðinu gagnvart sauðfjárbændum. Við getum hvorki aukið né fært til til að koma til móts við þá afleitu stöðu sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir núna, sem er verðlækkun frá sláturleyfishöfum til þeirra um 10–12%. Einhver var með lægri tölu. Þessi lækkun er m.a. rökstudd með því að mjög lítið fáist fyrir þau 3.000 tonn sem þarf að flytja úr landi, verðfall á ýmsum sauðfjárafurðum eins og gærum og ýmiss konar ástand í heimsmálum sem geri að verkum að einhverjir markaðir séu lokaðir. Við þessu þarf Alþingi að geta brugðist. Við ættum hér og nú að bregðast við þeirri afleitu stöðu sem sauðfjárbændur eru settir í. En því miður getum við nánast ekkert gert, ekkert „nánast“, við getum engu breytt. Því að þá raknar upp samningurinn og sagt er: Ja, þá verður samningurinn aftur að fara í atkvæðagreiðslu meðal bænda. Þess vegna legg ég þessa tillögu fram og skora á meiri hlutann og hv. framsögumann Harald Benediktsson, sem hefur staðið sig með mikilli prýði í þessu máli, að beita sér fyrir því innan stjórnarmeirihlutans að þessi tillaga verði samþykkt. Ég hika ekki við að halda fram að hún sé liður í meiri sátt um gerð búvörusamninga. Í mínum huga mun það verða áfram að við gerum búvörusamning sem er um stuðning við bændur og í raun og veru niðurgreiðslur á þeim afurðum sem við fjöllum um, sama hvort það varðar sauðfjárafurðir, nautaafurðir eða grænmeti eða annað. Kem ég ef til vill betur að því síðar.

Í þriðja lagi fjalla ég í nefndarálitinu um það sem ég gat ekki fjallað um við 2. umr. málsins því að svör höfðu ekki borist frá landbúnaðarráðuneytinu. En það kom fram á einum fundi nefndarinnar sundurliðun á tolltekjum af innfluttum landbúnaðarvörum fyrir árin 2014 og 2015. Það er prentað sem fylgiskjal við nefndarálit mitt og má segja að það sé mjög fróðlegt sem þar kemur fram. Þar kemur loksins fram að tolltekjur ríkisins árið 2015 af kjöti og ætum hlutum af dýrum í svokölluðum 2. kafla eru 840 millj. kr. á ári. Það er rétt að hafa þetta í huga, 840 millj. kr. Ég hefði kannski átt að segja það fyrst að í þessum köflum öllum, þessum tollnúmerum, eru tekjur ríkisins af tolli á innfluttar landbúnaðarvörur rúmir 2,2 milljarðar kr. og rétt er að hafa það í huga þegar við ræðum þessar upphæðir hér. Þar af eru þær, eins og ég sagði, af kjöti og ætum hlutum af dýrum 840 millj. kr. Þar kemur líka fram að rúmar 92 milljónir koma í tolltekjur af ostum og eggjadufti. Þar kemur líka fram að tolltekjur ríkisins af innfluttu grænmeti eru 172 millj. kr. Ef ég man rétt er stuðningur við niðurgreiðslu á þremur grænmetistegundum 272 milljónir með eða án raforkusamningsins. Rétt er að hafa í huga að þetta eru miklar tekjur sem þarna koma inn. En ég kem að því ef vil vill síðar að það er ekki þar með sagt endilega um allar innfluttu landbúnaðarvörur, sem sumar hverjar verður að flytja inn vegna skorts, eins og svínasíður, nautalundir og annað sem nauðsynlegt er að flytja inn því að við framleiðum bara ekki nóg af þeim vörum, en það er rétt að hafa þessar tölur í huga.

Einnig kom fram á fundi nefndarinnar þar sem fulltrúar ráðuneytisins útbýttu þessu svari vegna spurningar minnar að það er tæpur milljarður í köflunum 17–24 sem talið er að muni falla niður út af breytingum á svokölluðum sérmerktum ostum sem fluttir verða inn. Þó það nú væri, virðulegi forseti, að af þeim ostategundum sem við framleiðum ekki hér sé ríkið að skattleggja það upp á 1 milljarð sem færi auðvitað út í verðlagið og hækkaði verðið til neytenda hvað það varðar. Af hverju mega neytendur ekki bara fá þetta á því verði sem innflytjendur flytja inn plús hóflega álagningu verslana? Þá mundi ég segja að neytendur ættu innan skamms að sjá töluverða verðlækkun á þeim afurðum sem hér er fjallað um og samþykkt var við 2. umr. málsins, þ.e. tillaga frá meiri hluta nefndarinnar sem alla vega við fulltrúar Samfylkingarinnar samþykktum við 2. umr.

Eins og ég segi er mikið fjallað um þessar vörur. Það var m.a. tilgangur minn að setja fram fjölmargar spurningar til ráðuneytisins um innflutning og útflutning á hinum ýmsu landbúnaðarvörum sem hafa svo komið fram og eru í fylgiskjali undir málinu á vef Alþingis. Því miður gefst ekki tími til að fara í umræðu um þetta mál og ræða til þrautar kosti þess og galla. En eins og ég sagði áðan eru nokkrar tegundir sem við verðum að flytja inn. Eitt dæmi af því í þessu svari sem ég hef verið að tala um varðandi innfluttar landbúnaðarvörur, að þá kemur þar fram að á árinu 2015 voru flutt inn 433 tonn af svínasíðum og greitt fyrir í cif-verði tæpar 209 millj. kr., eða að meðaltali 482 kr. á kíló. Í bréfi sem ég hef fengið frá aðila úti í bæ sem þekkir þetta mál mjög vel — ég vil ekki vitna í hvaðan það kemur, vil halda þann trúnað — er þetta lagt þannig fram að núna á einhverju ákveðnu mánaðatímabili á þessu ári hafi verið flutt inn 145 tonn af svínasíðum. Cif-verðið á því var 409 kr. Tollur um 205 kr. sem gerir þá sirka 30 milljónir, ef ég reikna rétt, tolltekjur ríkisins af innflutningi á þessum svínasíðum, eða samtals um 614 kr. án vasks. Útsöluverð hins vegar á innfluttum svínasíðum er út úr búð hef ég séð — tek fram að þetta er ekki vísindaleg könnun gerð af ASÍ eða einhverjum sem fjalla um verðlagseftirlit — á bilinu frá 1.530 kr. og upp í 1.980 kr., sem ég hef séð hæst. 1.980 kr. af bréfi af svínasíðum sem tekið er fram að eru innfluttar annaðhvort frá Danmörku eða Þýskalandi, mínus virðisaukaskattur, er um 1.840 kr. þá. Mismunurinn á rúmum 600 kr., innflutningsverð plús tollur, í 1.800 kr. án vasks er nú dálítið mikil álagning. Sá sem hér stendur þekkir náttúrlega að innflutningsaðilar, þeir sem umpakka vöru og halda utan um hana og annað slíkt, þurfa auðvitað að fá sitt. Við erum að tala um hóflega álagningu sem þarf að vera. Allir þurfa sitt, þar með talin verslunin. En ef þessir útreikningar eru réttir, sem ég vil líka taka fram að eru ekki mjög vísindalega settir fram, má sjá að innflutningsverð með tolli sé sirka sinnum þrír þegar kemur að verðlagningu til neytenda. Það er ansi mikið í lagt að mínu mati. Ég kann ekki að útskýra það núna hvernig þessi mismunur skiptist, til þeirra sem flytja inn, umsýsla vöruna, vinna með hana, pakka henni, koma henni í verslanir, og verslunin þarf sitt, en að útsöluverðið sé orðið um tæpar 2.000 kr. af þessari vöru er náttúrlega dálítið mikil álagning. Ég spyr: Hver fær þennan mismun? Ef þetta einstaka dæmi er hægt að taka á fleiri sviðum af innfluttum landbúnaðarvörum er vert að hafa það í huga í þessari umræðu allri hvort þurfi að flytja inn eða ekki.

Ég sagði áðan að ég mundi tala um sauðfjárbændur og erfiða stöðu þeirra sem gerir ekkert annað en að versna nú um þessar mundir og verður miklu verri, í þeirri sláturtíð sem er hafin og á því ári sem fram undan er, en var núna síðast. Staðan bara versnar. Þess vegna finnst mér vera forsendubrestur hvað varðar sauðfjársamninginn. En Alþingi getur ekkert gert. Áfram mun aukast það magn, að mati aðila, sem þarf að flytja úr landi. Með öðrum orðum: Offramleiðsla er í landinu af lambakjöti miðað við innanlandsneyslu. Ef við notum bara þessa tölu, 3.000 tonn af þeim 10.000 tonnum sem voru framleidd á síðasta ári, plús ef það eykst eitthvað núna, og erfiðleikar eru núna frekar meiri í útflutningi en áður að mati sláturleyfishafa, m.a. út af lokuðum mörkuðum, þá eru það um 3.000 tonn sem þarf að flytja úr landinu. 3.000 tonn af þeim sauðfjársamningi sem er, sem er upp á 5 milljarða kr., deilt niður í nokkra undirliði, þá erum við í raun að greiða með þessum 3.000 tonnum út úr landinu um 1,6 milljarða kr. Sama hvort við köllum það niðurgreiðslur eða útflutningsbætur þá fara 1,6 milljarðar af því sem ætlað er til sauðfjárbænda sem yrði þá greitt niður í þennan útflutning til að koma þessu kjöti af markaði og út í lönd. Ekki borðum við meira af því sem þarna er.

Fram hefur komið hjá einum sláturleyfishafa að sala á lambakjöti hefur minnkað á þessu ári, sem er búið að vera frábært veðurfarslega séð. Svo blandast inn í það sem ég hef áður sagt, hræðsla mín við að ýmsir kúabændur sem eru ekki með mjög margar kýr og hafa ekki farið í endurbætur á fjósum sínum og tekið tæknina í notkun, blikur eru á lofti um að þeir muni selja frá sér sinn kvóta og auka við sig í sauðfé í staðinn þannig að vandinn mun vaxa.

Það komu líka fram í umfjöllun í nefndinni varðandi útflutninginn miklar væntingar hvað varðar að geta flutt út lambakjöt til Kína. Ansi langt í burtu. Þar kom fram að ef við gætum flutt út eins og 1.500 tonn til Kína vegna fríverslunarsamnings sem gerður var við Kína í ráðherratíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þá væri það mikill munur og mundi létta mjög á þessari umframframleiðslu. En þá kom fram af núverandi stjórnvöldum, sem lögðu fram samningsmarkmið sín í viðræðum við kínversk stjórnvöld, að lögð var meiri áhersla á það, og það komst inn í tollasamninginn, að selja hross á fæti til Kína. Án tolla. En ekki lambakjöt. Ég spyr, en enginn er hér til svara fyrir það, það getur enginn svarað því: Af hverju var ekki rætt um lambakjötið sem væri vafalaust brýnast að geta flutt út á þann stóra og mikla markað?

Virðulegi forseti. Það er eins og með svo margt annað í þessu máli í meðförum Alþingis, við því fæst ekki svar. Það er bara skilað auðu hvað þetta varðar.

Eitt atriði í viðbót vildi ég nefna sem kemur ekki fram við 3. umr. málsins. Það var í umræðu sem átti sér stað við 2. umr. málsins: Er þessi sauðfjársamningur til þriggja ára eða tíu ára? Við þingmenn jafnaðarmanna fluttum tillögu um að það yrði skýrt afmarkað að hann væri til þriggja ára. Samningsblaðið til tíu ára samnings gæti verið einhver leiðarskrif um það. Sú tillaga var felld. En á fund í atvinnuveganefnd kom sérfræðingur í samningsrétti til okkar og fjallaði um þennan samning sem ráðlagði okkur absalútt að fá inn bókun milli aðila, þ.e. milli ríkisstjórnar og Bændasamtakanna, um þann skilning að þetta væri þriggja ára samningur, eins og mér finnst a.m.k. fulltrúar annars stjórnarflokksins tala um, þ.e. sjálfstæðismenn. En fulltrúar hins ríkisstjórnarflokksins, framsóknarmenn, tala ekki um það. Ég spyr, og hv. framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Haraldur Benediktsson, getur kannski svarað því: Af hverju var ekki unnið að því að fá þá bókun? Er það m.a. vegna þess að ágreiningur er milli stjórnarflokkanna, eins og ég gat um áðan, hvort þetta er þriggja ára samningur eða tíu ára samningur? Þetta er veigamikið atriði sem meiri hlutinn talaði um að kæmi fyrir 3. umr. en hefur ekki komið enn.

Það er alltaf spurning hvað maður eigi að fara langt í umræðu um svona mál þegar við erum komin á lokasprett hvað varðar afgreiðslu. Ég hef gert að umtalsefni tvær breytingartillögur mínar og vanda sauðfjárbænda og ítreka það sem ég hef sagt þar að ég tel að sauðfjárbændur eigi miklu betra skilið en kemur fram í þessum samningi. Það þurfi að auka við ef eitthvað er. Það er ekki hægt að þessi stétt sem þegar á mjög erfitt taki á sig það mikla kjaraskerðingu sem verður út af styrkingu krónunnar eða út af ástandi í heimsmálum að ekki sé hægt að selja svo og svo mikið af kjöti til m.a. Rússlands, að vandinn vaxi bara og vaxi hvað þetta varðar. Hér hefðum við þurft að grípa inn í en það er ekki hægt.

Að lokum vil ég segja að ein af tillögum mínum við 2. umr. málsins var að setja inn heimild í lög um velferð dýra að taka mætti af stuðning ríkisins til þeirra sem fara illa með dýr. Sú tillaga var felld. Tillaga sem meiri hlutinn flytur er þó skref í rétta átt þótt mér finnist hún e.t.v. ekki ganga alveg nógu langt, en er í rétta átt. Ef ég hef séð rétt við undirbúning þessarar umræðu er hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir líka með tillögu hvað það varðar. Ég mun styðja þá tillögu sem er hægt að koma í gegn, sem er þá væntanlega tillaga meiri hlutans um þetta. Ég vil aðeins segja í lokin hvað það varðar. Við sáum mjög slæma frétt um aðbúnað dýra á sauðfjárbúi austur á landi. Rætt var oft við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis um þá flóknu stöðu sem þar var. Ég spyr að lokum: Ef mynd eins og okkur landsmönnum birtist þar hefði farið út fyrir landsteinana, þar sem við teljum okkur vera að selja heilnæmt, gott lambakjöt, sauðfjárafurðir sem eru búnar til á Íslandi eftir að féð gengur úti á heiðum landsins og fær fínt fóður, engir vaxtarhormónar og ekki neitt notað í það, hvað ef sú frétt hefði farið út fyrir landsteinana? Þess vegna er það bjargföst trú mín að við þurfum að festa þetta í lög sem aðvörun. Vonandi þarf aldrei að koma til þess en það þarf að vera heimild til þess að svipta þá bændur greiðslum frá ríkinu þar sem svona lagað kemur upp.

Afstaða okkar jafnaðarmanna mun koma fram í þeim breytingartillögum sem hér eru fluttar. Sumar tillögur eru til bóta alveg eins og var við 2. umr. og við studdum þær tillögur. Það er enn ágreiningur hér á milli um hvernig á að gera þetta. Það er hluti af breytingartillögum mínum. Afstaða okkar jafnaðarmanna til málsins þegar það kemur til lokaafgreiðslu mun koma fram við atkvæðagreiðsluna, hvenær sem hún verður. En ég tek eftir því að það er stillt af að atkvæðagreiðsla um tollasamninginn og þennan samning verður á sama tíma. Þar mun afstaða okkar koma fram.