145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum væntanlega komin að lokum 3. umr. um búvörusamninga. Mig langar að bregðast í ekki allt of löngu máli við þeim ræðum sem hér hafa komið fram og einungis segja að öll umræðan um búvörusamninga, öll umræðan um þetta stóra þingmál hefur verið ákaflega upplýsandi og færst til mikið meiri samstöðu um þær breytingar sem við þurfum að gera á komandi árum og við tíunduðum rækilega í 2. umr. Það hefur líka verið hnykkt á því í ræðum sem hafa verið fluttar við þessa umræðu.

Aðeins varðandi þau orð sem hv. þm. Páll Valur Björnsson lætur hér falla um þær fjölmörgu spurningar sem hann las upp úr grein sem hann vitnar til þá ætla ég ekki að segja annað en að allar þær spurningar verðskulda meiri umræðu og nánari yfirferð en við höfum tök á að gera hér. En ég hvet líka hv. þingmann, af því að hann sagði í ræðu sinni að hann læsi greinar og reyndi að kynna sér málin mjög vel, að skoða nýlega skýrslu sem Arion banki gerði um matvælaiðnað og matvælaframleiðslu þar sem fram koma mjög gild og vel rökstudd sjónarmið, eins og t.d. þau að framleiðni í landbúnaði hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Ég ætla ekki að gerast sekur um að vitna rangt til skýrslu sem ég nefni hér en þar er talað um framleiðniaukningu á bilinu 30–40%. Þar er talað um önnur tækifæri í landbúnaðinum sem hann hefur haft og hefur og mun þurfa að grípa. Þar er líka talað um að verðmæti íslenskrar búvöruframleiðslu hafi aukist verulega á undanförnum árum.

Allt saman eru það atriði sem verðskulda að sjálfsögðu mjög góða umræðu og ég sakna þess að ræðumaður hafi ekki haft á hraðbergi t.d. þá hlið mála sem hann fór yfir.

Hv. þm. Kristján L. Möller og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir röktu í ræðum sínum álit um breytingartillögur. Mig langar að segja um ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að mér fannst margt áhugavert sem hann kom þar inn á, sérstaklega umfjöllun hans um svínasíður og verðlagningu þeirra, sem verðskuldar að mínu viti miklu nánari og dýpri rannsókn.

Aðeins varðandi þær tillögur er þingmaðurinn flutti og kynnti. Ég fagna því sérstaklega og ætla nú bara að leyfa mér að nefna hér að í vinnu í atvinnuveganefnd, og mér finnst engin goðgá að nefna það hér við þessa umræðu, hafa hv. þm. Kristján L. Möller og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og aðrir nefndarmenn verið ákaflega lausnamiðuð í sínum ræðum og bera þær tillögur sem þau flytja hér þess merki.

Ég fagna mjög því sem kemur fram í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers að nú sé kominn skilningur á því að við getum ekki breytt lögum í einu vetfangi er varðar það mikilvæga verkefni sem við erum að leysa með því að heimila undanþágu frá samkeppnislögum til mjólkuriðnaðar. Þau mikilvægu verkefni höfum við tíundað áður í þessari umræðu felast í því að jafna stöðu milli framleiðenda og jafna stöðu milli byggðarlaga. Um þá tillögu sem hann flytur hér, um að ákveða að afnema undanþáguna árið 2019, vil ég aðeins segja að við höfum sett þá endurskoðun inn í skilgreint endurskoðunarferli og ég held að það sé rétt að við bíðum eftir þeirri niðurstöðu.

Ég trúi því að við þurfum að breyta svo miklu fleiri öðrum hlutum en bara þessari tilteknu undanþágu. Ég fjallaði m.a. um það við 2. umr. að það eru ýmis önnur tæki og tól sem við getum bætt og meðhöndlað með öðrum hætti til að ná sömu markmiðum en við getum náð með þessari tilteknu undanþágu. Meðan við höfum þau ekki látum við undanþáguna standa. Varðandi hitt sem hann rekur hér um atriði er varða afkomu sauðfjárbænda vil ég bara taka undir með honum og segja að við höfum eðlilega af því miklar áhyggjur. En ég ætla þá líka að rifja upp að ein af ástæðunum fyrir slæmri afkomu sauðfjárbænda núna er einmitt sú að við afnámum tiltekna undanþágu sem við höfðum áður fyrr, þ.e. við höfðum ákvæði um útflutningsskyldu (Gripið fram í.) sem við afnámum úr lögunum á þeim tíma. Það væri kannski fyrirhafnarinnar virði að kanna hvort hv. þm. Kristján L. Möller vildi ekki að við skoðuðum með hvaða hætti við getum breytt hans ágætu tillögu sem fram er komin um undanþáguákvæði og heimilað sláturleyfishöfum, verkendum lambakjöts á Íslandi, að starfa saman að markaðssetningu á erlendum mörkuðum, því að það mundi að mínu viti ekki skemma samkeppni hér innan lands.

Um það sem hv. þingmaður rakti hér um hross til Kína og þær undarlegu áherslur sem þar koma fram vil ég aðeins segja að fríverslunarsamningur við Kína sem við afgreiddum í upphafi þessa kjörtímabils eftir undirbúning fyrri ríkisstjórnar hefur því miður ekki komist til framkvæmda að því leyti að ekki er búið að fara í gegnum það viðurkenningarferli sem við þurfum að fara í gegnum til að geta opnað þann markað fyrir hvort tveggja, þær aukaafurðir sem falla til við sauðfjárslátrun og kjötið sjálft. Það er miður og ef það hefur sérstaklega verið sett í forgang að liðka fyrir innflutningi á lifandi hrossum til Kína liggja kannski fyrir því einhverjar ástæður, en við hv. þm. Kristján L. Möller getum kannski verið sammála um að við skiljum ekki alveg þá forgangsröðun verkefna.

Það er síðan í sjálfu sér bara bitamunur en ekki fjár hversu langt og hratt við viljum ganga fram í tillögum um hvernig við eigum að undirbúa gerð búvörusamninga á hverjum tíma. Önnur megintillaga hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að ræða eigi samningsmarkmið í þingsal áður en gengið er til samninga við bændur er í sjálfu sér ágætishugmynd, en við höfum sett það í endurskoðunarferli hvernig við eigum að undirbúa gerð búvörusamninga og hvernig við eigum að standa að þeim. Getur hugmynd hv. þingmanns þess vegna verið hluti af þeim verkfærapakka.

Vegna tillögu sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir flytur hér um að svipta bændur greiðslum vegna brota á velferðarlögum, lögum um velferð dýra, vil ég vísa til fyrri ræðu minnar í dag. Það er í sjálfu sér útfærsluatriði að því leyti að við viljum einungis stíga skynsamleg skref í þeim efnum, en ég virði alveg skoðanir hv. þingmanns er þar komu fram.

Að endingu: Við erum með afgreiðslu þessa frumvarps og þessara þingmála að leggja grunn að búvöruframleiðslu, starfsumhverfi fyrir landbúnað sem í dag framleiðir verðmæti sem eru um 100 millj. kr. á hverjum degi. Þá er búið að draga frá nauðsynleg aðföng sem eru flutt frá útlöndum, af því að hv. þm. Páll Valur Björnsson nefndi þau sérstaklega. Við erum hér með atvinnugrein sem á vissulega mikil sóknarfæri, en hún þarf líka góðan ramma til að lifa af samtímann hverju sinni. Það er það verkefni sem við erum að fást við hérna núna. Við erum öll sammála um að framtíð landbúnaðarins sé björt, ekki síst vegna þeirrar nýju og óvæntu stöðu sem komin er líka upp með auknum ferðamannastraumi og gildi landbúnaðarins fyrir ferðamennskuna í landinu. Ég fagna því að í lok á þeirri miklu umræðu sem farið hefur fram um landbúnað að þessu sinni hafi sjónarmið bæði skýrst og þingmenn færst saman í skoðunum um mikilvægi landbúnaðarins og því fagna ég.