145. löggjafarþing — 150. fundur,  12. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta andsvar. Ég sagði í ræðu minni rétt áðan að ég í sjálfu sér fagnaði þeim anda sem kæmi fram í þeirri breytingartillögu sem hann flutti. Ég mundi vilja að við sammæltumst um að vísa þeirri ágætu tillögu hans til þeirrar endurskoðunarnefndar eða samráðsvettvangs sem á að undirbúa gerð búvörusamninga. Við höfum rækilega lýst því í nefndaráliti okkar sem var hér til 2. umr. hvernig samráðsvettvangurinn skal vera skipaður og hvernig hann skal undirbúa búvörusamning á hverjum tíma. Hvort það verður nákvæmlega gert með þeim hætti sem þingmaðurinn tilgreinir í tillögu sinni ætla ég ekki að segja annað um en að þetta er ein leið til að skapa breiðari sátt um gerð búvörusamninga. Ég vil hins vegar líka segja að værum við ekki svona nálægt kosningum væru fleiri á græna takkanum til að afgreiða búvörusamningana að þessu sinni.