145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

nefndaseta þingmanna.

[13:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í fundarstjórn forseta í upphafi þingfundar vegna þess að ég er með spurningar um þinghaldið og mig þyrstir í svör forseta við ákveðnum vangaveltum sem sækja á mig og ég veit aðra þingmenn. Ég hef skilið það svo að það sé lykilatriði í þingstörfum allra þingmanna að starfa í þingnefndum. Núna fer t.d. í hönd þriggja daga nefndafundalota þar sem við munum bara sitja í þingnefndum. Þess vegna kemur það mér spánskt fyrir sjónir að það er einn óbreyttur þingmaður á meðal okkar sem situr ekki í neinni þingnefnd. Það er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem var áður forsætisráðherra en er núna þingmaður. Hann er á fullu þingfararkaupi og í raun og veru með 50% álagi vegna flokksformennsku og hann er með aðstoðarmann líka. Eru fordæmi fyrir því að óbreyttir þingmenn sitji ekki í neinni þingnefnd og taki þar með ekki þátt í nefndastörfum, (Forseti hringir.) svo ekki sé talað um að mæta ekki í atkvæðagreiðslur og taka ekki til máls í pontu Alþingis? (Forseti hringir.) Hefur forseti gert athugasemdir við þetta? (Forseti hringir.) Hefur hann komið þeim athugasemdum á framfæri við þingflokk Framsóknarflokksins? Er þetta í lagi?