145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið fimm prófkjör á síðustu dögum og valið á lista, með kjördæmaráði í einu tilfelli, á síðustu dögum. Á næstu örfáu dögum munu framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í sex kjördæmum landsins líta dagsins ljós. Í þessum prófkjörum hafa tekið þátt þúsundir flokksmanna og valið á lista samkvæmt eigin samvisku. Með þessu lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn algjöra sérstöðu meðal pólitískra afla á Íslandi hvernig valið er á lista flokksins þar sem mikill fjöldi fólks kemur að, tekur þátt í að marka listana og taka þátt í starfi flokksins. (Gripið fram í: Störfum þingsins?) (BjG: Þetta eru störf þingsins.) Það eru listar flokksins og listar fólksins, (Gripið fram í.) en það er auðvitað öðruvísi hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. Þar eru auðvitað ekki margir kallaðir til þegar þarf að velja á listana. (BirgJ: Við höfum þúsund manns.) Svo situr bara einn í (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) restina og velur lifandi eða dauða á listana. Þannig að ég held að þú ættir nú ekki, hv. þingmaður, að hafa hátt um hvernig valið er á lista þegar þú ein situr svo eftir og kroppar þá út sem þér líkar ekki við. (BirgJ: Vertu ekki að fara með …) Þú ert nú bara að (Forseti hringir.) trufla mig í ræðunni þannig að ég gat ekki sagt það sem ég ætlaði að segja. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Þú ættir nú bara … (Gripið fram í: BirgJ: Hættu að ljúga þarna.) þú ættir nú bara að (Gripið fram í: Uss.) (Forseti hringir.) að passa þig á því að vera ekki að …

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð (BirgJ: Hættu að ljúga.) í þingsalnum.)

trufla mig þegar þú hendir fólki út í hafsauga af listunum þínum dag (Forseti hringir.) eftir dag. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig sem Sjálfstæðisflokkurinn vinnur. Við látum fólkið í flokknum velja og síðan samþykkir hann það á fjölmennum og stórum fundum. Þar er enginn einn maður sem hendir neinum út. Hjá okkur ríkir friður um prófkjörin. [Hlátrasköll í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum og biður hv. þingmenn, hvort sem þeir eru í ræðustól eða úr sætum sínum, að gæta að orðum sínum. Það var ekki gert í þeirri umræðu sem fór hér fram.)


Efnisorð er vísa í ræðuna