145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er gott að vera minntur á að í dag hefði nýtt þing átt að koma saman. Með öðrum orðum, það hefði verið betra á stigafundinum hinn umrædda miðvikudag ef tilkynning hv. þm. Höskulds Þórhallssonar á Alþingi um nýja ríkisstjórn hefði verið látin duga en forustumenn ríkisstjórnarinnar ekki komið þar á eftir. Það hefði verið miklu minna klúður út frá því. Ég segi það vegna þess að krafan var um kosningar. Við hefðum átt að vera búin að kjósa, t.d. í byrjun ágúst, en 29. október er í raun allra vitlausasti tíminn sem hægt var að ákveða fyrir kosningar með tilliti til fjárlagagerðar. Þetta vildi ég bara segja í tilefni dagsins.

Hitt atriðið sem mig langar að ræða um er sala á landi Reykjavíkurflugvallar sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson stóð fyrir nýlega. Ég tel að hann hafi enga heimild til að selja þetta land. Heimildin var í fjárlögum 2013, í 6. gr. sem fjallaði um að selja land utan girðingar flugvallarins. Þetta er innan girðingar. Þar fyrir utan er þetta gjöf en ekki sala á þessu landi. Ég gagnrýni mjög samning Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, um lokun neyðarbrautarinnar sem leiðir svo til þessarar sölu hér í lokin. Þetta eiga sjálfstæðismenn skuldlaust.

Hitt atriðið sem ég vil ræða varðar fyrirspurn mína í gær til hæstv. iðnaðarráðherra um framkvæmdir á Bakka. Ég ætla að fylgja því aðeins eftir. Það mál þolir enga bið út af veðrum. Þarna er framkvæmdatíminn ekki 12 mánuðir heldur kannski sex mánuðir. Þess vegna erum við að bíða eftir frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu grafalvarlega máli? Ég segi fyrir mitt leyti: Við alþingismenn verðum að reyna að sameinast um að finna lausn sem allir geta unað við til þess að halda áfram með það verk sem þarna er hafið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna