145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Eitt mesta félagslega ranglætið sem viðgengst á Íslandi er launamunur kynjanna. Sú staðreynd að konur eru með lægri laun en karlar fyrir sömu störf, sú staðreynd að konur eru í færri stjórnum, færri stjórnunarstöðum, er stærsta félagslega ranglætið sem þrífst í samfélagi okkar og er brýnt mál að laga það. Við höfum sem betur fer verið á þeirri leið hægt og bítandi, ekki nógu hratt að vísu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að þessi ræða er aldrei nógu oft flutt. Og það er sérstaklega ástæða til að gera það í kjölfar þess að hv. þm. Ásmundur Friðriksson sér ástæðu til að koma hér upp og breyta þessum dagskrárlið, sem heitir jafnan störf þingsins, í störf flokksins til að guma sig af því sem gerðist í kjördæmi hans og Suðvesturkjördæmi hjá Sjálfstæðisflokknum um liðna helgi. Þó að það sé auðvitað réttur hvers flokks fyrir sig að ákveða hvernig hann skipar á sína framboðslista er ekki hægt að segja neitt annað en að þetta sé alger afturför. Það var algerlega fráleitt fyrir nokkurn þann sem er hlynntur því að afnema það félagslega ranglæti sem felst í ójafnri stöðu kynjanna að kjósa þennan flokk í þessum kjördæmum, algerlega fráleitt.

Ég held að það væri miklu frekar ástæða fyrir kjósendur á Íslandi að taka höndum saman um að ganga enn lengra en gert hefur verið í þinginu, þar sem 46% þingmanna eru konur, og tryggja í næstu kosningum að meiri hluti þingmanna í þessum sal verði konur. (HHG: Heyr, heyr.) Þannig stígum við skref í áttina til framtíðar, til bættrar stöðu kynjanna og í átt að því að afnema það félagslega ranglæti sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson virðist bara ekki gera sér grein fyrir. Hann virðist tilheyra einhverri allt annarri öld í því samhengi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna