145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:26]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð lögðum fram frávísunartillögu á málið í heild sinni og röktum í 13 liðum af hverju málið væri ótækt. Það er auðvitað fyrst og fremst af því að lítið sem ekkert samráð var haft við lykilaðila um þetta stóra mál, búvörusamninga. Það var ekki haft samráð við neytendur, eitthvert samráð við suma bændur í forustu en ekkert samráð við verslunina o.s.frv.

Þessir samningar eru samningar um óbreytt ástand. Þetta eru samningar fyrir gamla Ísland. Þetta eru samningar sem hækka tolla á osta. Þetta eru samningar þar sem verðsamráð verður enn þá við lýði í mjólkuriðnaði. Þetta eru samningar þar sem gömlu flokkarnir ríghalda í aðferðir sínar við að stjórna. Það er ólíðandi og við getum ekki stutt þessa samninga, (Forseti hringir.) en munum greiða atkvæði með þeim breytingartillögum (Forseti hringir.) sem eru til bóta.