145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um búvörusamninginn. Við vinstri græn teljum mjög brýnt að skapa landbúnaði í landinu framtíðarsýn og að starfsöryggi sé tryggt til lengri tíma, að fyrirsjáanleiki sé í þeirri atvinnugrein jafnt sem öðrum. Við teljum að það hafi ekki verið góð vinnubrögð varðandi þennan búvörusamning sem liggur fyrir og aðkoma fárra að þeirri vinnu í upphafi. Atvinnuveganefnd hefur reynt að gera bragarbót þar á og við vinstri græn höfum lagt því máli lið og reynt að laga þennan samning eins og við höfum getað í nefndinni. En það er ekki nóg. Ég tel gott að það sé skýrt endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár þar sem hægt er að greiða aftur atkvæði um samninginn og tíminn sé notaður vel til þess að skoða þá annmarka sem eru á samningnum gagnvart mörgum greinum, eins og sauðfjárbændum og fleirum þar sem óánægja hefur komið upp. Við vinstri græn leggjum fram breytingartillögu um dýravelferð (Forseti hringir.) í þessu máli sem gengur lengra en tillaga meiri hlutans og vonumst til að góður stuðningur verði við hana.