145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í upphafi þessa máls lýsti ég efasemdum mínum um búvörusamning eins og hann lá fyrir. (Gripið fram í.) Afsakið, ég … (Gripið fram í.) — Ég ætla að fá að ljúka máli mínu hérna, virðulegi forseti. Efasemdir mínar snúa fyrst og fremst að því að ég dreg í efa að þessi samningur bæti hag þjóðar og bænda, jafnvel síður bænda.

Það sem gerir að verkum að ég treysti mér til að greiða atkvæði með þessu að sinni er að hér verður hugað að þriggja ára tímabili. Þar verður hugað að athugun, gerð athugun á hag landbúnaðarins í heild sinni. En mér væri skapi næst að bæta við einni breytingartillögu sem gengi út á að hvert það lögbýli sem heldur bílakirkjugarð heima hjá sér verði svipt beingreiðslum, ekki nema af umhverfisástæðum. En ég læt það væntanlegri endurskoðun eftir að vinna það mál. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu með þessum orðum. (Gripið fram í.)