145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Hér leggjum við vinstri græn fram tillögu sem hljóðar svo, 1. mgr.:

„Við vörslusviptingu skv. 1. mgr. er Matvælastofnun skylt að fella niður allar opinberar stuðningsgreiðslur samkvæmt ákvæðum búvörulaga, nr. 99/1993, og búnaðarlaga, nr. 70/1998.“

Við göngum þarna alla leið og teljum ekki eðlilegt að neinar opinberar stuðningsgreiðslur í nokkru formi fari til þeirra sem brjóta lög um dýravelferð og eru búnir að fá ítrekaðar aðvaranir fyrir alvarleg brot. Þetta eigi ekki bara við um það skepnuhald sem fellur undir beingreiðslur heldur líka um þær skepnur sem eru á viðkomandi búi og brotið er á samkvæmt lögum um dýravelferð.

Við eigum að ganga alla leið gagnvart því þegar skynlausar skepnur eiga í hlut. Meiri hlutinn kemur með tillögu hér á eftir sem gengur ekki eins langt og tillaga okkar, þ.e. að þetta eigi við um allar skepnur hvort sem þær falla undir beingreiðslur eða ekki. Ég hvet þingheim til að standa með varnarlausum dýrum í þessu landi (Forseti hringir.) og samþykkja þessa tillögu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)