145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðunni um þetta mál og þennan þátt málsins finnst mér hafa komið í ljós mikill vandi í nálgun stjórnarliða á stöðu landbúnaðarins í íslensku samfélagi. Það er rosalega mikilvægt að það sé tiltrú og traust í garð þessarar mikilvægu atvinnugreinar. Það er ekki verið að gera neinum greiða með því að draga úr möguleikum hins opinbera til að hafa agavald á þeim sem fara illa með skepnur. Hér er verið að reyna að finna leiðir til þess að gera viðurlög við misnotkun á dýrum eins lítil og mögulegt er. Ég segi með hálfum hug já við þessu því að mér þykir satt að segja alls ekki nógu langt gengið og miklu eðlilegra að hafa víðtækar heimildir til að taka opinberan stuðning af þeim sem misfara með dýr. (Forseti hringir.) Það er þá eftir atvikum þannig að rökstyðja þarf það ef menn beita slíkum heimildum. En þær eiga að vera fyrir hendi í lögum.