145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér flyt ég tillögu sem er um að reyna að skapa meiri sátt um gerð búvörusamninga. Landbúnaðarráðherra leggi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu með samningsmarkmiðum ríkisins sem eru rædd við fyrri umr., málið gangi til nefndar milli umræðna, komi svo til síðari umr. til samþykktar eða synjunar eins og gengur og gerist og Alþingi komi þar með að gerð búvörusamnings áður en ráðherrar og Bændasamtökin setjast niður. Þetta er tvímælalaust til bóta að mínu mati. Ég trúi ekki því sem ég sé hér að meiri hlutinn, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, greiði atkvæði gegn þessari tillögu sem sett er fram á þann hátt sem ég var að lýsa. Það er mín bjargfasta trú að samþykkt þessarar tillögu mundi auðvelda vinnu Alþingis við gerð búvörusamninga, hvort sem það verður eftir tvö eða þrjú ár eða tíu ár eins og sumir framsóknarmenn halda fram en sjálfstæðismenn reyna (Forseti hringir.) að telja okkur trú um að þetta sé þriggja ára samningur.

Virðulegi forseti. Ég skora á stjórnarliða að endurskoða afstöðu sína. Sjálfstæðismönnum fer það illa að vera svona rauðir.