145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við lokaafgreiðslu þessa máls munum við þingmenn jafnaðarmanna sitja hjá við frumvarpið í heild sinni. Við höfum flutt breytingartillögur sem við töldum vera til bóta fyrir málið sem hafa verið felldar. Það hefur eitthvað breyst í meðförum nefndarinnar en allt of lítið. Enn þá horfumst við í augu við það að Alþingi stendur frammi fyrir gjörðum hlut og getur engu breytt eins og ég mundi gjarnan vilja gera núna, eins og vegna nýjustu upplýsinga varðandi sauðfjárrækt, þ.e. um hrun á erlendum mörkuðum og slæma stöðu vegna gengisstyrkingar. Ég hefði viljað koma til móts við sauðfjárbændur í þessum samningi með tilliti til þessa. En ég get ekki annað en sagt í lokin að ég óska bændum góðs gengis og þakka þeim fyrir frábæra framleiðslu á góðum og heilnæmum vörum, frábærum landbúnaðarvörum. Ég óttast hins vegar að þessi samningur sé ekki góður fyrir (Forseti hringir.) bændur. Ég vek athygli á því í lokin að svo virðist vera (Forseti hringir.) að af þeim stóra meiri hluta sem starfar á Alþingi séu aðeins 19 þingmenn að samþykkja búvörusamning.