145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um mikilvægan tollasamning. Hann hófst í minni tíð í utanríkisráðuneytinu. Hann er umdeildur. Því miður hefur komið í ljós að frá miðju ári 2013 hefur nánast ekkert samráð verið haft við bændur. Ég held eigi að síður að þessi samningur skapi mikil sóknarfæri, bæði fyrir neytendur sem munu eiga völ á vöru á lægra verði en áður og sömuleiðis, ef rétt er á haldið, að hann geti líka skapað mikil sóknarfæri fyrir landbúnað, ekki síst í þeirri stöðu sem nú er komin upp á markaði fyrir sauðfjárafurðir. Með þessum samningi er möguleiki á því að koma meiru af þeim á framfæri á markað innan Evrópu en áður og í ýmsum öðrum greinum tel ég líka að þarna sé um framfarir að ræða fyrir bændur.

Ég tel því að hér sé í reynd vinningsstaða bæði fyrir neytendur og landbúnaðinn. Ég harma þó að (Forseti hringir.) núverandi ríkisstjórn hafi fellt niður það samráð sem var haft við landbúnaðinn fram á mitt ár 2013.