145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það góða við þennan samning er að hann skapar sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað, möguleika til að auka framleiðslu og selja á erlenda markaði. Það er mjög mikilvægt að menn nálgist landbúnaðinn sem alvörugrein sem geti sótt fram. Það er það góða. Vandinn við innleiðinguna hér er hins vegar sá að hætta er á því að neytendur njóti ekki til fulls þess ávinnings sem gert er ráð fyrir að milliríkjasamningar hafi í för með sér. Ísland hefur skrifað undir samningsskuldbindingar um að markmiðið með milliríkjasamningum um frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir sé að auka samkeppni í gæðum og verði. Aðferðafræðin sem stjórnarmeirihlutinn heldur fast í við úthlutun innflutningskvóta, sem er að bjóða þá upp, kemur hins vegar bæði í veg fyrir gæðaaðhald og verðaðhald vegna þess að hin innflutta vara verður of dýr og of léleg vara er flutt inn. Það er mjög mikilvægt að breyta þessu kerfi.

Engu að síður styð ég þennan samning og hann er vissulega mikið skref í rétta átt.