145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[15:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun og vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða rammaáætlun eins og hún er nefnd í daglegu tali, skal eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í áætluninni skal í samræmi við markmið fyrrnefndra laga lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar.

Tillagan sem ég mæli hér fyrir er lokapunkturinn við vinnu á 3. áfanga rammaáætlunar sem hefur farið fram frá árinu 2013.

Það er mikilvægt að minna á að þetta er í fyrsta skipti sem vinnan við rammaáætlun er unnin í samræmi við lög um vernd og orkunýtingu landsvæða, en þau tóku að fullu gildi 2013. Það ferli sem við höfum núna farið í gegnum í fyrsta skipti samkvæmt lögunum er því afar lærdómsríkt og skiptir miklu að draga lærdóm af því. Núna getum við litið til baka og farið yfir hvort einhverjir hnökrar séu á því lagaumhverfi sem um rammaáætlun gildir og Alþingi setti og metið hvort nauðsynlegt sé að gera einhverjar umbætur til að treysta það undirlag í lögum sem öll þessi vinna byggir á.

Rammaáætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn áætlunarinnar hefur fjallað um og hafa uppsett rafmagn 10 MW eða meira, eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira.

Mun ég nú rekja nokkrar dagsetningar varðandi vinnuferlið.

Þann 14. janúar 2013 var gildandi rammaáætlun samþykkt á Alþingi og tóku þá gildi lög nr. 48/2011, að frátöldum 1.–3. gr. laganna sem höfðu öðlast gildi 20. maí 2011.

Þann 25. mars 2013 skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn áætlunarinnar í samræmi við 8. gr. laga nr. 48/2011 og hófst þá vinna við 3. áfanga rammaáætlunar sem hér er verið að mæla fyrir.

Það er rétt að nefna hér að hinn 21. mars 2014 skilaði verkefnisstjórn tillögum til ráðherra um flokkun þriggja virkjunarkosta, en í viðauka við erindisbréf hennar var þeim tilmælum beint til verkefnisstjórnar að forgangsraða vinnu sinni þannig að hún mundi framkvæma eins fljótt og auðið væri faglegt mat á þeim sex virkjunarkostum sem færðir voru úr nýtingarflokki í biðflokk eftir umsagnarferli 2. áfanga rammaáætlunar og þeim tveimur kostum sem ekki fengu fullnægjandi mat í meðförum verkefnisstjórnar 2. áfanga.

Tillaga til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða var samþykkt á Alþingi 1. júlí 2015. Með samþykktinni var virkjunarkosturinn Hvammsvirkjun færður úr biðflokki í orkunýtingarflokk í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar. Sú viðbót er hluti tillögunnar sem ég mæli hér fyrir í dag.

Samhliða umfjöllun um þá virkjunarkosti sem voru í forgangsröðun samkvæmt viðauka við erindisbréf verkefnisstjórnar vann hún að umfjöllun um þá virkjunarkosti sem henni voru sendir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar af Orkustofnunar, eins og lögin kveða á um. Þann 10. mars 2014 lágu fyrir fyrstu drög Orkustofnunar að lista með virkjunarkostum verkefnisstjórnar til umfjöllunar, en verkefnisstjórn fékk hana afhenta formlega 21. febrúar 2015.

Hvað varðar störf verkefnisstjórnar skipaði hún fjóra faghópa til þess að fara yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meta þá með stigagjöf og gera tillögur til verkefnisstjórnar. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 er fjöldi faghópa samsetning þeirra og skipan þeirra ákveðin af verkefnisstjórn.

Faghópar 1 og 2 voru skipaðir 16. apríl 2014 og tóku til starfa í maí sama ár. Verkefni starfshóps 1 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti náttúru, menningarminja, landslags og víðerna.

Verkefni faghóps 2 var að meta virkjunarkosti á landsvæði með tilliti til annarrar nýtingar en orkuvinnslu, svo sem vegna ferðaþjónustu, útivistar og landbúnaðar. Faghópur 3 var skipaður 9. júlí 2015 og tók til starfa í ágúst 2015.

Verkefni faghóps 3 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið, svo sem áhrifa á félagslega velferð íbúa, samfélagslega fjölbreytni, samskipti, samstöðu, virkni og aðra þá þætti sem hópurinn taldi æskileg og mögulegt að leggja mat á.

Faghópur 4 var skipaður 12. október 2015. Verkefni faghóps 4 var að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta, eða hópa virkjunarkosta, á þjóðarhag.

Eins og kveðið er á um í lögum nr. 48/2011 kynnti verkefnisstjórn drög að tillögum sínum og gafst stofnunum, almenningi og hagsmunaaðilum færi á að veita umsagnir um framkomin drög. Það samráðsferli stóð í þrjár vikur, frá 31. mars til 20. apríl 2016. Í því umsagnarferli bárust verkefnisstjórn 18 umsagnir frá 15 aðilum. Í kjölfarið vann verkefnisstjórn úr tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta, fór í lögbundið 12 vikna samráðsferli sem stóð frá 11. maí 2016 til 3. ágúst sl.

Í síðara samráðsferlinu bárust verkefnisstjórn 69 umsagnir frá alls 44 aðilum.

Endanlegar tillögur verkefnisstjórnar bárust mér 26. ágúst sl. og í þeim er lögð til flokkun alls 82 virkjunarkosta. Tillögur verkefnisstjórnar eru einróma ef frá er talinn virkjunarkosturinn Hólmsárvirkjun við Atley þar sem tveir fulltrúar í verkefnisstjórn skiluðu séráliti.

Ég hef nú farið yfir tillögur verkefnisstjórnar að höfðu samráði við iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eins og lög gera ráð fyrir, og legg þær nú fram hér á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögunum óbreyttum eins og þær voru settar fram af verkefnisstjórn til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar fór umhverfismat áætlunar fram samhliða gerð áætlunarinnar. Ég hef átt reglubundna upplýsingafundi með formanni verkefnisstjórnar þar sem hann hefur kynnt fyrir mér stöðu mála við vinnu 3. áfanga rammaáætlunar. Ég ætla ekki að fara yfir rökstuðning fyrir flokkun hvers virkjunarkosts fyrir sig en vísa þar til skýrslu verkefnisstjórnar og þá sérstaklega kafla 9.3 á bls. 165. Þó vil ég nefna að í tillögunum er lagt til að alls verði 18 virkjunarkostir færðir í nýtingarflokk, 38 í biðflokk og 26 í verndarflokk.

Eins og ég nefndi áðan bárust verkefnisstjórn fjölmargar umsagnir í þeim lögbundnu umsagnarferlum sem tillögur hennar fóru í. Meðal annars hefur verið bent á að við flokkun virkjunarkosta hafi einungis verið byggt á niðurstöðum tveggja faghópa, þ.e. faghópa 1 og 2, en niðurstöður faghópa 3 og 4 hafi haft lítil áhrif á flokkun einstakra virkjunarkosta og því hafi vægi samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa virkjana verið minna en æskilegt væri. Þar er rétt að benda á að í lokaskýrslu verkefnisstjórnar er að finna niðurstöður faghópa 3 og 4 þar sem kemur fram að aðferðafræðin sem notuð er við flokkun virkjunarkosta, þ.e. svokölluð fjölþátta flokkun, henti ekki vel þegar meta þarf samfélagsleg og efnahagsleg áhrif í ljósi fyrirliggjandi þekkingar. Ég vek athygli á að það atriði var einnig viðfangsefni í öðrum áfanga rammaáætlunar. Þó að þekking og mat á þessum þáttum hafi farið fram er enn margt óljóst um það hvernig því skuli beitt við ákvarðanatöku á vettvangi rammaáætlunar.

Ég tel því mikilvægt að leggja áherslu á að þróa aðferðafræði rammaáætlunar þegar fjallað er um samfélagsleg áhrif einstakra virkjunarkosta svo og efnahagsleg áhrif þeirra og tel að sú vinna eigi að hafa forgang í næsta áfanga rammaáætlunar.

Jafnframt vil ég ítreka hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda um mikla hagsmuni og málefni sem hafa stundum valdið átökum í samfélagi okkar. Ég tel að rammaáætlun sé grundvallartæki til þess að vinna undirlag fyrir ákvarðanatöku um það hvaða landsvæði við viljum taka undir virkjanir og hvaða landsvæði við viljum vernda til framtíðar. Ég hef lagt á það ofuráherslu sem umhverfis- og auðlindaráðherra að standa vörð um þetta stjórntæki og að það fái að vinna eins og lögin segja til um og komist fullbúið hingað inn á Alþingi til endanlegrar umfjöllunar og afgreiðslu.

Einnig megum við ekki tapa sjónum af því að rammaáætlun er ætlað að leggja hinar stóru línur fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu orkukosta. Hún á þannig að gefa ákveðna heildarmynd en á ekki að fara niður á það stig að fara í of ítarlegar greiningar á smærri atriðum.

Að lokum vil ég nefna að tillagan sem ég mæli hér fyrir er í senn öflug orkunýtingaráætlun á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun. Fyrirliggjandi tillaga felur í sér mikla möguleika til orkuöflunar, eða rúmlega 1.400 MW. Til samanburðar vil ég benda á að uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi er um 2.500 MW. Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd. Vinnur tillagan þannig til beggja handa, eins og ég hef stundum nefnt að rammaáætlun verði að gera. Að auki er í tillögunni stór biðflokkur þar sem er að finna virkjunarkosti sem lagt er til að skoðaðir séu betur í framtíðinni.

Ég tel í raun gott að við tökum örugg skref og flýtum okkur hægt þegar um er að ræða framtíðarnýtingu landsvæða, enda er tækniþróun hröð, hagsmunamat breytist og við vitum ekki hvernig staðan verður eftir fimm eða tíu ár.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessarar tillögu. Ég legg til að henni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hæstv. atvinnuveganefndar.