145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[15:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í skipan faghópanna vegna þess að hér kemur fram að faghópur 3 var ekki skipaður fyrr en 9. júlí 2015 og tók til starfa í ágúst 2015. Faghópur 4 var ekki skipaður fyrr en 12. október 2015 og í niðurstöðu í þessari þingsályktunartillögu um faghóp 4 stendur m.a., með leyfi forseta:

„Faghópur 4 komst að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að meta þjóðhagslega hagkvæmni þeirra virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar.“

Það var ekki um aðra niðurstöðu að ræða frá þeim faghópi. Það hefur komið skýrt fram á einum fundi atvinnuveganefndar, þar sem okkur var kynnt væntanleg þingsályktunartillaga eða niðurstaða rammaáætlunar 3. áfanga, virðulegi forseti, að vegna þess að umhverfis- og auðlindaráðuneyti gat ekki tryggt fjármuni og sagt hvernig ætti að greiða þeim sem tóku að sér vinnu í faghóp 3 og 4 laun, þá tók hópurinn ekki til starfa. Það kom alveg skýrt fram á fundi nefndarinnar að það væri umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem hefði ekki tekist að koma með fjármagn til að borga þessu fólki fyrir sína vinnu, laun fyrir sína vinnu, og þess vegna var faghópur 3 og 4 ekki skipaður.

Virðulegi forseti. Af hverju nefni ég þetta? Jú, vegna þess að þegar er kominn upp ágreiningur vegna þess að faghópur 3 og 4 störfuðu ekki. Mér er umhugað um að öll þessi vinna sé sem faglegust vegna þess að ég tók þátt í því, virðulegur forseti, sem formaður þáverandi iðnaðarnefndar að leiða til lykta og til fullra sátta og samþykktar það sem varð svo að lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þarna tel ég að ráðuneyti hafi ekki staðið sig (Forseti hringir.) og eigi stóran þátt í því klúðri sem er að renna hér upp.