145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því lúmskt að málið sé komið fram en samt ekki mikið. Það minnir óneitanlega á umræðuna sem var hér seinast þegar við fjölluðum um rammaáætlun, hún var hatrömm og leiðinleg. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji miklar líkur á því að svo verði aftur ef menn ætla að fara með þetta svona seint inn á þingið og sömuleiðis ef málið fer til atvinnuveganefndar. Þá spyr ég sérstaklega vegna þess að seinast var réttlætt að hv. atvinnuveganefnd tæki við málinu vegna þess að þá var verið að flytja úr biðflokki yfir í nýtingarflokk. Hér er verið að gera hvort tveggja, setja í verndarflokk einnig.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í Urriðafoss. Þegar við vorum seinast að ræða þetta þá var umræðan hvað mest um neðri hluta Þjórsár. Ég kynnti mér á sínum tíma þessar tilteknu þrjár virkjanir þarna. Hvað varðaði efri virkjanirnar þá mýktist ég aðeins í afstöðunni til að virkja þar enda er ég ekki á móti vatnsaflsvirkjunum. Þetta er mjög góð leið til að búa til rafmagn og ein sú besta sem við þekkjum reyndar ef út í það er farið. Það er því mikilvægur þáttur í því að reyna að bjarga því sem bjarga má í framtíðinni gagnvart loftslagsbreytingum til dæmis.

Þegar ég fór hins vegar og leit á Urriðafoss hugsaði ég með mér: Það er galið að virkja þetta. Það er gjörsamlega galið. Ég sá með eigin augum, með því að horfa á náttúruna, að ég hefði ekki getað skrifað niður nema í ljóðformi hvers vegna. Þess vegna velti ég fyrir mér ef Urriðafoss er settur í virkjunarflokk, eins og tillagan gerir ráð fyrir, hvaða trú hv. þingmaður hefur á því að það sé þá stöðvað á grundvelli slíkra sjónarmiða seinna í ferlinu þegar að því kemur að meta næstu skref? Hversu mikla hættu telur hv. þingmaður á því að Urriðafoss verði virkjaður ef þessi tillaga verður samþykkt hér á þinginu?