145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem flutti hér ræðu um Hvalárvirkjun, sem mér skilst á henni að hún bíði eftir af nokkurri óþreyju, hvort hv. þingmaður hafi lesið umsögn Umhverfisstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum sem Umhverfisstofnun hefur núna skilað til Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að ef þessar framkvæmdir ganga eftir sem gert er ráð fyrir vegna Hvalárvirkjunar þá muni, eins og þar segir, „óbyggð víðerni á Vestfjörðum minnka um allt að 21% frá því sem nú er. Ráðgert er að mynda þrjú lón þar sem nú eru nokkur stöðuvötn. Þau geta orðið samtals allt að 9 ferkílómetrar að flatarmáli. Með efnistöku og byggingu stíflu eru áhrifin talin varanleg og óafturkræf. Þau vötn sem fara undir lón virkjunarinnar falla öll í þann flokk að njóta sérstakrar verndar samkvæmt a-lið í 61. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd. Forðast ber að raska vistkerfum og jarðmunum sem taldar eru þar upp nema brýna nauðsyn beri til. Í umræddri lagagrein kemur einnig fram sú málsmeðferð að skal viðhafa vegna framkvæmda sem hafa í för með sér röskun slíkra náttúrufyrirbæra.“

Þá segir enn fremur, virðulegi forseti:

„Fram kemur í frummatsskýrslu að skilyrði lífvera í þeim vötnum sem um ræðir muni breytast verulega vegna mikilla breytinga á vatnshæð og eru þau talin talsvert neikvæð, en mögulega afturkræf.“

Ég vil rekja þetta vegna þess að ég hef áður heyrt hv. þingmann sem er þingmaður Vinstri grænna tala mjög ákveðið fyrir þessari virkjun. Ég er mjög andvígur henni. Ég held að hún mundi hafa verulega neikvæð áhrif, ekki bara á Hvalá heldur líka mjög neikvæð áhrif á glæsilegt fossakerfi í Eyvindarfjarðará og á ána Rjúkandi. Það kemur auðvitað fram í þessari umsögn frá Umhverfisstofnun.

Þess vegna velti ég fyrir mér hvernig hv. þingmaður getur talað um sjálfa sig sem verndunarsinna þegar hún er fylgjandi þessari virkjun eftir því sem mér heyrist og raun ber vitni.