145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir að nú skuli stjórnarmeirihlutinn ákveða að koma hér inn með tillögu til þingsályktunar á tíma þar sem í raun og veru hefði átt að vera kallað til nýs þings ef allt hefði verið eðlilegt og auðvitað er það mín skoðun að fyrir löngu hefði átt að vera búið að slíta þessu þingi. Nú eru menn hins vegar á einhverjum lokametrum að reyna að klára mál sem ríkisstjórnin telur vera mikilvægt að klára áður en farið er í þinghlé og svo kosningar.

Nú skilst mér að samkvæmt starfsáætlun þingsins sé gert ráð fyrir því að þing starfi út þennan mánuð, eða til 29. september. Hversu margir þingdagar eru nákvæmlega inni í þeirri áætlun hef ég ekki farið yfir, en ég geri ráð fyrir að þeir séu sennilega ekki fleiri en tíu eða svo og einhverjir nefndadagar á móti væntanlega. Í mínum huga er það ekki nándar nærri nógur tími til þess að fara í þá vinnu sem nauðsynleg er til að fara vandlega yfir þá tillögu sem hér er mælt fyrir af hálfu hæstv. umhverfisráðherra.

Ég fagna því að vísu að í þessari tillögu sem ráðherra leggur fram óbreytta frá verkefnisstjórninni eru virkjunarkostir sem hafa farið í gegnum faglega meðferð verkefnisstjórnar, það er mjög jákvætt og gott, en eins og fram kom í andsvari hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar áðan og í orðaskiptum mínum og hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur hér áðan líka þá eru sjónarmið þarna sem eru pólitísks eðlis. Það er einfaldlega spurningin um það hvað við viljum gera og hvernig við viljum taka ákvarðanir byggðar á þeim faglegu gögnum sem við höfum og öðrum sjónarmiðum sem okkur kann að finnast mikilvæg sem kjörnum fulltrúum þjóðarinnar áður en ákvörðun er tekin. Þótt mikilvægt sé að fara með mál í ferli og byggja á faglegri úttekt þá er það auðvitað alltaf þannig á endanum að það er almenningur í landinu með vali sínu á fulltrúum á þjóðþingið sem ræður för og ákveður til hvaða sjónarmiða skuli tekið þegar hlutir eru ákveðnir og þar með talið hvað skuli verndað og hvað skuli nýtt þegar kemur að virkjunarhugmyndum.

Hér eru á ferðinni til viðbótar við það sem á undan hefur farið tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það að taka ákvörðun um virkjun í byggð í stærsta vatnsfalli þjóðarinnar, Þjórsánni, sem þegar hefur verið virkjuð mörgum sinnum, felur í sér að mínu mati ekki bara faglega heldur líka pólitíska ákvarðanatöku. Mér finnst full ástæða til þess á þeim tímapunkti sem við stöndum núna sem samfélag að bera afstöðu stjórnmálaflokka til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir undir kjósendur og það séu kjósendur í landinu, almenningur í landinu, sem marki stefnuna þegar kemur að þessu.

Þar fyrir utan finnst mér fráleitt að málið komi ekki til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Það er hluti af því hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur misfarið með þennan málaflokk allt þetta kjörtímabil, ýmist með því að ætla í fyrstu að leggja niður umhverfisráðuneytið, hafa það sem aukastarf annars hæstv. ráðherra eða þá að gera stórkostlegar breytingar með alls konar digurmælum og yfirlýsingum af hálfu fulltrúa þingmeirihlutans þegar þessar tillögur hafa komið til umfjöllunar í þinginu eins og frægt er orðið. Því miður hefur enginn friður verið um þetta ferli á þessu kjörtímabil. Það skrifast alfarið á reikning meiri hlutans í þinginu hvernig á því máli hefur verið haldið. Það hefur engin tilraun verið gerð til þess að gera þetta þannig að skapist geti nokkur sátt eða friður um ferlið.

Þess vegna finnst mér fullkomin ástæða til þess að málið sé látið bíða þess að nýtt þing komi saman, að nýr meiri hluti ákveði framhaldið í krafti þess stuðnings sem stjórnmálaflokkarnir fá í komandi kosningum. Ég geri mér grein fyrir því að með því er ég að segja mig frá þeirri vinnu vegna þess að ég er ekki í framboði í næstu kosningum. En ég held að staðan sé einfaldlega þessi. Það er of skammur tími til stefnu til þess að klára þetta mál. Í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, sem auðvitað ætti að fjalla um þetta mál, hefur ekki tekist af hálfu stjórnarmeirihlutans að afgreiða samgönguáætlun, þrjú og hálft ár hefur ekki dugað til þess. Ætla menn að það sé hægt á einhverjum tíu dögum að afgreiða tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða?

Þar fyrir utan er það alveg sérstakt áhyggjuefni hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur haldið á friðlýsingarferli þegar kemur að þeim virkjunarhugmyndum sem hafa verið settar í verndarflokk rammaáætlunar. Það hefur akkúrat ekkert verið gert í þeim efnum, engin vinna farið fram allt frá því að menn stöðvuðu friðlýsingarferlið við Þjórsá sem var komið af stað í byrjun kjörtímabilsins.

Ég vil aukinheldur benda á að það er mikil mótstaða við virkjunaráform á miðhálendi Íslands. Hér er verið að leggja til Skrokkölduvirkjun sem erfitt er að sjá fyrir sér að verði gerð án mikils rasks og án þess að menn fari í sérstaka línulögn yfir Sprengisand eða á Sprengisandi og á miðhálendi Íslands. Meira að segja formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir að hann vilji alls ekki sjá slíkt. Er þá ekki ástæða fyrir menn að bíði við þegar það er orðin þverpólitísk samstaða um það, virðulegur forseti, um að staldra við og hugsa okkar gang í þessum efnum? Mér finnst það.

Ég held líka í ljósi þess sem fram kom í orðaskiptum mínum við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að menn eigi að endurskoða áform um Hvalárvirkjun. Ég held að menn eigi líka að velta fyrir sér þeim fregnum og þeim tíðindum sem við höfum heyrt undanfarin missiri af því hverju stóriðjan er að skila til samfélagsins, hvað það er sem kemur af hagnaði þeirra, hvernig íslenskt samfélag græðir á þeim framkvæmdum sem hér um ræðir. Hvaða peningar eru að koma í kassann? Ef engir peningar koma í kassann þá geta verið aðrar knýjandi ástæður fyrir því að ráðast í þessar framkvæmdir, jú, það vantar störf. En það vantar ekki störf, það vantar fólk. Við þurfum að flytja inn vinnuafl til landsins til þess að geta unnið öll þau störf sem þarf að inna af hendi.

Það er af þessum ástæðum sem ég hef rakið í ræðu minni sem mér finnst full ástæða til þess að velta fyrir sér á hvaða vegferð meiri hluti þingsins er með því að leggja þessa tillögu til þingsályktunar fram núna á þessum tímapunkti. Ég skil ekki alveg hvað vakir fyrir stjórnarmeirihlutanum, hvort það sé í alvöru hugmynd hans að á örskömmum tíma, í einhvers konar flýtimeðferð og vegna þess að í þetta skipti hefur stjórnarmeirihlutinn allrar náðarsamlegast sleppt því að gera stórkarlalegar breytingar á tillögum verkefnisstjórnar, eigi þetta bara að fara hægt og rólega og hægt og hljótt í gegnum þingið. Ég er ekki tilbúinn til að taka þátt í því. Ég mun aldrei, aldrei nokkurn tímann á meðan ég lifi, sætta mig við það að Urriðafoss verði virkjaður. Aldrei nokkurn tímann.