145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:48]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Hann gerði meðal annars að umtalsefni virkjanir í Þjórsá. Það kemur skýrt fram, í þeim gögnum sem hér liggja fyrir, að engri óvissu er eytt um afdrif villta laxastofnsins. Þó að þau málefni hafi að sjálfsögðu verið til skoðunar virðist það vera sem svo að ramminn sem markaður er í kringum þessa vinnu geri ekki ráð fyrir því að hægt sé að fullkanna þetta mál þannig að við getum með óyggjandi hætti sagt að áætlaðar virkjanir muni ekki skaða þennan stofn. Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta áðan því að mér finnst það stórmál ef Alþingi ætlar að taka ákvörðun um að setja þessa tilteknu kosti í nýtingarflokk sem kann að hafa þau áhrif að þessum stofni sé ógnað, sem er auðvitað hluti af þeirri líffræðilega fjölbreytni sem við eigum, sem er verðmæti sem okkur ber að standa vörð um. Ég hef ekki enn, og fékk það ekki frá hæstv. ráðherra, fengið fullnægjandi svör við því hvað er þá hægt að gera. Hvar er hægt að stoppa málið í ljósi þess að fyrir liggur umhverfismat þótt gamalt sé og það hefur verið kært og er til meðferðar í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála á þessum virkjunum, en við erum ekki komin með niðurstöðu úr því ferli. Ef hér er ákveðið er að setja þessar virkjanir í nýtingarflokk þá hef ég alla vega ekki fengið svör við því hvernig við getum þá gripið inn í ef við metum það sem svo að villta laxastofninum sé ógnað. Eins og ég benti hér á áðan þá er þetta ekki bara spurning um verðmæti í lífríkinu, þetta eru auðvitað mikil efnahagsleg verðmæti sem mér er ekki kunnugt um að hafi kannski verið lagt sérstakt mat á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem þekkir þessi mál mjög vel, þetta fyrirkomulag allt saman, hvað hann telur um þessa tilteknu breytu í þessu samhengi.