145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég tel að verkefnisstjórnin sé að vinna eins vel og hún getur innan þess ramma sem henni er markaður. Kannski er það ekki nægjanlegt til þess að svara öllum þeim spurningum sem upp kunna að koma. Þá veltir maður því fyrir sér, og það er það sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að hann lýsir áhyggjum af tímafrestinum. Ég ætla að taka undir þær áhyggjur hv. þingmanns, því að hér er tillaga verkefnisstjórnar lögð fram óbreytt. Það er margt gott í þessari tillögu, ég tek það fram, og ég tel, eins og ég sagði, að hér hafi verið unnið eftir fremsta megni innan þess ramma sem verkefnisstjórn er ætlaður. En eftir standa ýmsar spurningar, spurningar um samfélagslegu áhrifin og efnahagslegu áhrifin sem hafa verið rædd og þau hafa kannski verið skilgreind allt of þröngt í umræðunni til þessa. Ég nefndi hér áðan, í lok fyrra andsvars míns, að í villta laxinum kynnu að felast jafn mikil efnahagsleg verðmæti og t.d. í einhvers konar orkunýtingu svo að dæmi sé tekið.

Aðalmálið er kannski það að þegar búið er að samþykkja þær tillögur sem hér liggja fyrir þá eru kannski engar sérstakar leiðir til þess að skoða þau mál betur. Hv. þingmaður kom að því í svari sínu áðan að í raun og veru ýtti ekkert á, það væri engin pressa. Maður veltir því fyrir sér hvort við séum á köflum, þó að það hafi nú verið að breytast á undanförnum árum, of miðuð að því að telja að ávallt þurfi einhverjar framkvæmdir að vera í gangi, að það sé mjög mikilvægt að við séum með stöðugar framkvæmdir í gangi jafnvel þó að ekki sé vitað í hvað sú orka eigi að renna.

Það er vissulega mikilvægt að hafa þessa flokkun, en þegar fyrir liggja (Forseti hringir.) ýmsar spurningar þá spyr maður sig: Er það orðin óafturkræf ákvörðun, þó að framkvæmdir séu ekki hafnar, að setja virkjanir í nýtingarflokk?