145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru ekki mörg dæmi þess að umhverfismat hafi snúið við ákvörðunum um það að fara í virkjun ef einhver. Það er von að menn spyrji: Er ekki ástæða til að staldra við og fara aðeins betur yfir málið vegna þess að það er þá verið að taka ákvarðanir sem verður mjög erfitt að snúa til baka? Auðvitað treysti ég verkefnisstjórn og þeim faghópum sem hafa verið að starfa mjög vel til sinna starfa. Við verðum samt sem áður að skoða í hvaða pólitíska andrúmslofti verkefnisstjórnin hefur starfað á þessu kjörtímabili. Það hefur ekki verið þannig að stjórnvöld hafi falið þessari verkefnisstjórn ákveðið verkefni og látið hana síðan algerlega afskiptalausa. Nei, þvert á móti, það hefur beinlínis verið gengið þannig fram að sérstakir virkjunarkostir hafa verið teknir út fyrir sviga, því beint til verkefnisstjórnarinnar að það eigi að skoða þá sérstaklega. Þetta var gert 2013 eða þegar verkefnisstjórnin sagðist hvorki hafa tíma né stöðu til að fara yfir þá virkjunarkosti sem ráðherra fól henni að fara yfir. Þá var bölsótast yfir því. Málið kom hérna inn í þingið, meiri hluti atvinnuveganefndar, sem á ekkert að fjalla um þessar tillögur, gerði stórkostlegar breytingar, bætti við alls konar virkjunarkostum, hélt því fram að nefndin hefði sjálf unnið þá faglegu úttektir sem skorti og væri búin að ákveða að setja mætti alla þessa virkjunarkosti í nýtingu. Það er í slíku pólitísku andrúmslofti sem verkefnisstjórnin er að skila þessum tillögum til okkar núna. Ég tel því fullkomlega eðlilegt, í ljósi þess hversu mikill ófriður hefur verið í kringum þessi mál og framgöngu meiri hlutans hér í þinginu gagnvart þeim, að málið verði geymt til næsta kjörtímabils og farið sé yfir það í öðru pólitísku andrúmslofti og af öðrum pólitískum meiri hluta hér í þinginu.