145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:59]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að á þessu kjörtímabili hafi verið stigin skref, heillaskref, í átt að því að fara betur yfir þessi mál með góðri og jákvæðri löggjöf um náttúruvernd sem okkur tókst í sameiningu að klára hér í þinginu og í umhverfis- og samgöngunefnd. Það er á grundvelli þeirra laga sem við sjáum núna umsagnir frá Umhverfisstofnun um Hvalárvirkjun þar sem verið er að vísa í ákvæði sem við samþykktum í þeirri löggjöf. Það væri æskilegt að við þyrftum ekki að vera í því togi á milli náttúruverndarsinna og nýtingarsinna sem einkennt hefur þessa umræðu síðustu áratugi þar sem menn eru alltaf einhvern veginn í pókerspili með þá kosti sem um ræðir og umræðan hefur einkennst svolítið af því að menn fara fram með gífurlegum gassagangi, leggja til dæmis til að bætt sé við sex eða sjö virkjunarkostum sem þeir ætla ekki að ná fram heldur er það bara samningatækni. Hugmyndin er að ná einhverjum öðrum í staðinn, einhverjum tveimur eða þremur og það sé lágmarksmarkmið. Það er það sem við sjáum í þeim tillögum sem hér blasa við. Það koma tillögur um að bæta við virkjunarkostum sem meiri hlutinn hefur talið gríðarlega mikilvægt að ná í gegn.

Þetta er pólitísk togstreita, það er miður, en það er okkar sem stöndum verndarmegin í þeirri togstreitu — það er ekkert annað í stöðunni en að toga á móti og tala fyrir náttúruna og vera talsmenn hennar í öllu. Ef það er ekki gert þá fækkar á endanum ósnertum víðernum, þá fækkar fossunum, þá sökkva dalir og náttúrufyrirbrigði, sem við mundum vilja eiga og mundum vilja skila til komandi kynslóða, hverfa.