145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum auðvitað byrjað á því að virða þau ferli sem þegar hefur verið ákveðið að nýta í þessu. Ég nefni sem dæmi lögin um vernd og nýtingu sem þingsályktunartillagan byggir á. Hvergi í lögunum er gert ráð fyrir að sérstakir virkjunarkostir séu teknir út með einhverjum tilteknum hætti heldur er gert ráð fyrir því að ferlið sé endurtekið reglulega þar sem verkefnisstjórnir fara yfir ákveðna virkjunarkosti, skoða ákveðna parametra sem fyrir fram er búið að skilgreina og síðan sé þessu skilað reglulega inn til ráðherra sem leggur tillögu fyrir þingið eins og þá sem hér er til umræðu.

Það var ekki gert á þessu kjörtímabili. Menn ákváðu hins vegar að taka sérstaka virkjunarkosti vegna þess að það hentaði þeim ekki pólitískt að fylgja löggjöfinni eins og hún hefur verið teiknuð upp, fylgja ferlinu eins og gert var ráð fyrir að það mundi líta út. Auðvitað var það allt gert með það sem skálkaskjól að síðasti meiri hluti hefði gert alls konar breytingar og ekki farið að lögum og þess vegna hefðu menn heimild til að vera líka með sínar breytingar í þessu o.s.frv. Þetta er nákvæmlega það sama og við sjáum til dæmis með Vatnajökulsþjóðgarð sem er eiginlega nokkurs konar andsvar við Kárahnjúkavirkjun, sem er sárabót fyrir Kárahnjúkavirkjun. Og ákvarðanataka sem byggir á svona togstreitu getur aldrei verið góð. Auðvitað mun ákvarðanataka af þessu tagi leiða til þess að það sem okkur er heilagast og dýrmætast hverfur, það sem við eigum og okkur ber skylda til að skila til komandi kynslóða. Það verður ekkert eftir af því. Bara með þessari „sakleysislegu“ virkjun Hvalár á Ströndum á Vestfjörðum hverfa 21% af óbyggðum víðernum Vestfjarða. Það er ekkert smáræði.