145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:06]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að leggja þessa þingsályktunartillögu fram. Ég segi: Hver tekur því ekki fagnandi þegar lögformlegu ferli er fylgt svona í hvívetna? Hér erum við með skýrslu upp á 367 blaðsíður frá helstu sérfræðingum landsins á þessu sviði. Ég hef ekki tölu á hvað það eru margir sérfræðingar sem eru búnir að koma að málinu. Ráðherra leggur þetta óbreytt fram án þess að breyta því handvirkt eins og fyrrverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, gerði þar sem hún tók fram fyrir hendurnar á öllum þessum sérfræðingum og kom með þá tillögu. Síðan kemur hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og spyr hæstv. ráðherra hvernig hún ætli að bregðast við hinu og þessu sem er í skýrslunni, þessum álitum frá sérfræðingunum, og um laxastofninn í neðri hluta Þjórsár o.s.frv. Svo tala hv. þingmenn um lögformlegt ferli þess á milli. Þessir sérfræðingar hafa unnið innan þess ramma. Við erum hérna með rammaáætlun. Auðvitað er unnið innan þess ramma.

Ég veit að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir veit betur. Hún segir að engar leiðir séu eftir eftir að búið er að samþykkja þetta. (KJak: Það er ekki rétt.) Það er bara akkúrat það sem þessir sérfræðingar benda á, akkúrat í þessum atriðum varðandi laxastofnana og ég skal bara lesa hérna orðrétt, en þar er verið að gefa álit á Holtavirkjun, með leyfi forseta:

„Verkefnisstjórn telur nú sýnt að umræddri óvissu verði ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á, heldur sé eðlilegt að um hana verði fjallað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar.“

Er ekki hægt að grípa inn í þetta í þessu ferli? (ÖS: Pólitískt?) Ja, pólitískt eða faglega? Ekki pólitískt, bara faglega. Ég segi nú bara ekki annað en það að þetta er nákvæmlega það sem hv. atvinnuveganefnd benti á í rökstuðningi sínum þegar hún mælti með og gerði þær tillögur að þessir virkjunarkostir kæmu til framkvæmda. Værum við þá komin alla vega ári lengra en við erum núna. Þessir sérfræðingar fallast bara akkúrat á rök atvinnuveganefndar í síðustu orrustu hér um rammaáætlun að í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda sé tekið á þessu máli.

Allt tal um að þetta sé ekki lögformlegt ferli, ég fæ það á tilfinninguna að þegar við förum að ræða rammaáætlunina þá fari allt á hvolf. Hv. þingmenn Róbert Marshall og einhverjir fleiri töluðu um pólitíska togstreitu. Núna er ráðherra akkúrat að fylgja lögformlegu ferli. Þá koma menn, bara fyrstu ræðumenn og tala um pólitíska togstreitu. Ég get svarið það, ég veit eiginlega ekki hvernig ætlast er til að þetta sé unnið, nema það sé kannski bara þannig að ef þessir sérfræðingar skila ekki skýrslu akkúrat í takt við pólitíska hugsun þá sé þetta ómögulegt, þá eigi að grípa fram fyrir hendurnar á þessum sérfræðingum. Það var annað hljóð í strokknum hérna í síðustu orrustu.

Það kom til umræðu áðan hvort þetta mál ætti að fara til atvinnuveganefndar frekar en umhverfis- og samgöngunefndar. Einhverjir hv. þingmenn gerðu athugasemdir við það og töldu að sú nefnd væri hæfari eða vanhæfari eða hvað var sagt. En ég vil benda á að þeir virkjunarkostir sem atvinnuveganefnd var að basla við að koma í framkvæmd á síðasta þingi, það fæst staðfest hérna í þessari skýrslu sérfræðinga ef menn vilja lesa um það.

Ef við rennum aðeins yfir þessa helstu virkjunarkosti, sem ég fagna, og atvinnuveganefnd reyndi að koma inn á síðasta þingi, þ.e. Skrokkölduvirkjun, þá fallast sérfræðingarnir á að hún eigi heima í nýtingarflokki. Akkúrat þau rök sem atvinnuveganefnd benti á, það lá alveg ljóst fyrir, það eru engin ný gögn eftir frá því á síðasta þingi um þá virkjun, en fram kemur að þar verður línan lögð í jarðstreng. Þetta lá allt ljóst fyrir. Svo með Holtavirkjun eins og ég sagði áðan, þá er það umhverfismat framkvæmda sem fer í gegnum áhrif á laxastofnana.

Austurengjar í Krýsuvík eru í nýtingarflokki. Þar meta þeir það svo að Austurengjar eða Trölladyngja, þeir tengja þetta svolítið saman, þessa kosti, en þeir leggja alla vega til að annar kosturinn verði virkjaður. Gott og vel. Ég er sammála um Austurengjarnar, það er betra að prófa sig áfram þar. En mikill ferðamannastraumur er nálægt Austurengjum og við hverinn Seltún og annað þarna er mikil traffík. Þess vegna undrast ég svolítið að Búrfellslundur skuli vera í biðflokki á þeim forsendum að svo margir ferðamenn sjái hann og það geti eyðilagt fyrir þeim ferðina að sjá allar þessar vindmyllur í Búrfellslundi. Þannig að ég hnýt aðeins um það hjá þessum ágætu sérfræðingum.

Eldvörpin eru áfram í nýtingarflokki. Ég verð að segja að ég var hissa á því í síðasta ramma að Eldvörpin væru í nýtingarflokki. Ég verð að viðurkenna að mér varð aðeins um að þeir sérfræðingar skyldu komast að þeirri niðurstöðu, nema það hafi verið pólitísk færsla á milli flokka, kannski var það þannig. En varðandi Eldvörp, þar greip bæjarstjórn Grindavíkur inn í og setti inn í aðalskipulag, Eldvörp og Eldvarpahraun. Þar setti hún inn í aðalskipulag að það væri hverfisverndarsvæði og er þar með búin að tryggja að boranir í garðinum, í sjálfum Eldvörpunum, akkúrat þessum Eldvarpagarði, verði ekki leyfðar. Þar verður því bara borað meðfram þeim garði þannig að gígaröðin helst óhreyfð.

Við getum haft okkar skoðanir á einstökum virkjunum. Sveifluháls í Krýsuvík, ég get alveg tekið undir að skiptar skoðanir séu um hann og set spurningarmerki við hann. En þessi einkunnagjöf, ef við ætlum að fara eftir einhverju lögformlegu ferli verðum við að gera það, við verðum þá að taka mark á því.

Mig langar að enda þetta á orðum hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem segir að við byggjum ekki Ísland (Forseti hringir.) án þess að það sjáist á náttúrunni. Verum raunsæ og jarðbundin og einhvers staðar verðum við að virkja ef við ætlum (Forseti hringir.) að búa hér. Svo mörg voru þau orð hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.