145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:19]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég get alveg tekið undir að það er mjög erfitt að meta það hvað er pólitík og hvað er ekki. Ég hef reynt að hugsa málin ekki pólitískt, ég er bara þannig gerður. En hvað er pólitík? Það eru skoðanir manna, þær mæla hvar þú ert í pólitík, vinstri sinnaður eða hægri sinnaður. Það er komin hefð fyrir því að einhver greinarmunur sé þar á. Mín sýn á þetta er að við verðum að hlusta á sérfræðingana og svo er það pólitískt mat. Hvað er pólitík? Ég segi: Það er pólitík ef þú vilt virkja á þínu svæði, á þínu heimasvæði, þar ert þú með allt aðra hugsun þar sem það hentar þér og þínum nánustu eða þínu nærumhverfi, en svo ef það á að virkja einhvers staðar annars staðar á landinu þá er það ómögulegt, þá hentar það ekki. Að því leytinu til litast svo sem allt af pólitík en kannski meira af persónulegum skoðunum sem ég hefði talið að væri meira virði í þessu en einhver pólitík.