145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:24]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var hv. þingmaður áðan sem spurði að því hvenær við ætluðum að fara eftir ferlinu. Ég heyrði ekki betur en hv. þingmaður hefði sagt það. Kannski misheyrðist mér eitthvað.

Pólitísk umræða, mér fannst hún svolítið litast af því á síðasta þingi þegar við í góðri trú um að við værum að gera rétt, sem staðfestist hér af öllum þessum sérfræðingum, komum með tillögur um að breyta þessari tillögu, töldum að þingið hefði vald til þess að breyta henni þannig að ákveðnir virkjunarkostir færu í nýtingu. Þá vorum við úthrópaðir og kallaðir öllum illum nöfnum. Við vorum uppnefndir talíbanar og ég veit ekki hvað og hvað. (ÖS: Ég bað þig afsökunar á því.) Já, en það lýsir andrúmsloftinu sem var þá. (Gripið fram í.) Við vorum úthrópaðir og sérstaklega formaður nefndarinnar fyrir pólitísk afskipti. Það var flokkað sem pólitík. Það er bara það sem ég vil kannski helst forðast. Ég var ekki sá fyrsti sem nefndi þetta orð núna í þessari umræðu, pólitík. En ég treysti því að hér verði málefnaleg umræða og við getum farið yfir skýrslurnar frá öllum þessum sérfræðingum. Ég virði ráðherrann fyrir að vera ekkert að rugla í þeim og koma með þær bara óbreyttar. Ég virði hæstv. ráðherra fyrir það.