145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:47]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, þakka honum fyrst fyrir mjög góða ræðu, og ég er honum hjartanlega sammála þegar kemur að Urriðafossi. Ég held að hver sá einstaklingur sem mundi fara þangað og skoða það náttúrufyrirbæri, sem er svo nálægt okkur hér á höfuðborgarsvæðinu, 45–50 mínútna akstur að fossinum, mundi komast að sömu niðurstöðu, eða mjög margir að minnsta kosti, og ekki tíma að missa þetta náttúrufyrirbæri, þennan foss, og fórna honum í einhverja slíka virkjun.

Mig langar að spyrja af því að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að á bak við slíka ákvarðanatöku, sem felst í þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar, komi pólitískt mat sem getur auðvitað líka byggt á fagurfræði, þetta er bara byggt á gildi náttúrufyrirbærisins í sjálfu sér, hvort hv. þingmaður hafi með sambærilegum hætti skoðað öll þau náttúrufyrirbæri sem eru í nýtingarflokki og lagt er til að verði í nýtingarflokki. Og hvort hann sé þeirrar skoðunar að það sé ekki eðlilegt að sambærilegt mat liggi til grundvallar hjá þingmönnum áður en tekin er ákvörðun um að setja virkjunarkosti í nýtingarflokk. Ber ekki mönnum að fara að Skrokköldu, fara að Hvalárvirkjun og fara upp að þeim vötnum sem um er rætt að sameina eigi í eitt og skoða þau óbyggðu víðerni sem tapast, þannig að menn séu algjörlega með það á hreinu, þeir sem taka þessar ákvarðanir, hvað sé í húfi?