145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við spurningunni um hvort ég hafi sjálfur skoðað alla hina kostina eða hluta af þeim, er nei, því miður. Ég sé hérna heilmikið af stöðum sem mig langar núna til að líta á til að leggja á þetta tilgreinda mat. Því að þegar ég skoðaði þetta á sínum tíma, byrjaði á því, þá gerði ég mikið af því að fletta upp kortum og reyna að sjá þetta úr lofti, reyna að öðlast einhverja tilfinningu fyrir þessum svæðum og lesa auðvitað úr gögnum 2. áfanga rammaáætlunar. Þau gáfu manni einhverja svipmynd af svæðinu. Það er aldrei í líkingu við það að mæta á svæðið sjálfur og sjá það. Þegar ég sá Urriðafoss í fyrsta sinn, hef séð hann áður vegna þess að ég átti heima ekki mjög langt í burtu þarna, en ég hafði einhvern veginn ekki áttað mig á því að þetta væri sá foss sem menn væru í alvöru að tala um að virkja, mér fannst það fáránleg hugmynd um leið og ég sá hana. Svo hef ég rekist á annan stað sem mér þykir ekki jafn vænt um vegna þess að ég sé ekki sömu perluna þar, enda er ekki allt, ekki hver einasti fermetri af landinu endilega þess eðlis að ekki megi virkja, eins fallegt og landið er og allt það.

Ég meina, ég er hlynntur vatnsfallsvirkjunum í grundvallaratriðum, bara ekki alltaf og ekki hvenær sem er og ekki bara út frá faglegum sjónarmiðum því að menn komast að þeirri niðurstöðu með Urriðafoss, alla vega enn sem komið er. Svo veit maður ekkert hvernig fer eftir það. Ég sé alla vega ekki hver verði næstu skrefin eftir að málið er samþykkt, ef við gefum okkur að þetta verði samþykkt á Alþingi, en að þá sé til staðar ferli til að taka við þessu fagurfræðilega mati. Ég velti fyrir mér hvort það væri hægt ef við gætum spólað aftur í tímann eða búið til nýtt ferli. Ég velti fyrir mér hvort hægt væri að gefa þingheimi, fulltrúum þingheims eða almenningi færi á að búa til einhvers konar ferli þar sem fólk gæti greitt atkvæði um þessar virkjanir út frá því að hafa séð svæðin. Ég velti fyrir (Forseti hringir.) mér hvernig það mundi líta út. Ég held, mig grunar með hliðsjón af Urriðafossvirkjun, að það liti öðruvísi út. (Forseti hringir.) Ég er sammála hv. þingmanni, mér finnst stórfurðulegt að einhver sem horfir á Urriðafoss vilji virkja hann. Mér finnst það galið.