145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það hljómi fyrir öðrum, þegar ég segi það, eins og það hljómaði fyrir mér á sínum tíma þegar ég heyrði fólk tala um Kárahnjúkavirkjun. Ég man að ég hafði nú ekki brennandi áhuga á málinu á þeim tíma, en tók eftir að fólk sem hafði farið þangað var almennt á móti virkjuninni. Tók eftir því að fólk sem hafði raunverulega reynslu af því að vera þarna eitthvað var á móti virkjuninni. Ég tók eftir þessu.

Kannski mundi maður gera ráð fyrir því að ákveðin fylgni væri á milli fólks sem hefur áhuga á að fara út á land og sérstaklega inn á miðhálendið til þess að skoða náttúruna sem mundi þá kunna að meta náttúruna langt umfram vatnsaflsvirkjanir eða virkjanir af nokkru tagi. Þess vegna held ég að það gæti verið áhugaverð tilraun ef hún væri raunhæf, sem ég efast reyndar um að hún sé, að allir þingmenn sem taki þátt í þessu fari og skoði þessi svæði. Ég held að ef það mundi gerast þá hefði það verulega mikil áhrif á atkvæðagreiðsluna. Þá held ég að hlutverk okkar hér sem er svona í sjálfu sér þegar allt kemur til alls að hafna þessu eða samþykkja, ekki að breyta þessu eða móta þetta, þá held ég að það hefði veruleg áhrif á þá ákvarðanatöku. Ég hygg að þá yrði sennilega, held ég, meiri sátt um að taka meira inn í spilið þessi fagurfræðilegu sjónarmið. En auðvitað kostar þetta gríðarlegan tíma og þetta krefst þess af þeim sem taka slíkar ákvarðanir að skoða alla þessa staði. Þetta eru mjög margir staðir.

Mér finnst það þess virði að velta því fyrir sér vegna þess að ég tek núna miklu meira mark á því, ég heyri miklu betur það sem fólk var að segja í sambandi við Kárahnjúkavirkjun eins og t.d. þegar hv. þingmaður hefur spurt að þessu. Hefur fólk séð þessa staði? Hefur fólk verið þarna og séð hvað það er að taka ákvörðun um? Ég hygg að svarið sé oftar en manni finnst þægilegt: Nei. Það er auðvitað eitthvað sem (Forseti hringir.) allir ættu að vera sammála um að væri þess virði að laga ef það er á annað borð mögulegt.