145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra leggur hér fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem er byggð á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Um þessi lög og um þennan aðdraganda ætla ég að fara nokkrum orðum.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að með setningu þessa frumvarps sem tókst að fylgja hér í gegnum Alþingi og gera að lögum tókst samvinna milli allra flokka sem þá skipuðu Alþingi Íslendinga, þingmanna sem þar voru. Lögin voru samþykkt eftir mikið samráð og góða vinnu af fulltrúum allra flokka og samþykkt samhljóða. Það var merkileg niðurstaða sem þar fékkst. Mér hefur alltaf fundist að í framhaldi af því ætti okkur að takast að vinna eftir þeim lögum á faglegan hátt, sem leiðir svo til þingsályktunartillögu eins og liggur frammi. Þá er það sett í hendur Alþingis að ræða þessa áætlun við tvær umræður, við vinnu í nefnd þar sem umsagna er leitað, allir aðilar geta sett inn umsögn, sent inn athugasemdir eða gert athugasemdir o.s.frv.

Lögin sem við settum 2011, lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, taka mið af norsku lögunum sem voru búin að vera í gildi í nokkuð langan tíma. Við breyttum þó ýmsum þáttum eins og t.d., ef ég man rétt, að hafa sett í lögin að eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggur ráðherra fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um áætlun, vernd og orkunýtingu landsvæði. Ég man að upphaflega frumvarpinu var sagt á fjögurra ára fresti. Því var breytt í meðförum Alþingis. Ég segi þetta, virðulegi forseti, vegna þess að ég bar þá von í brjósti að um þetta yrði þar með samhljómur meðal flokka á Alþingi Íslendinga um hvernig skyldi vinna tillöguna til Alþingis. Það er ljóst í mínum huga að þegar tillagan kemur fram getur hún tekið breytingum í meðförum Alþingis. Alþingi er hinn endanlega afgreiðsla á rammaáætlun. Þingmenn geta gert breytingartillögur og meiri hluti Alþingis ræður að lokum. Það á að takast að menn verði sáttir um þetta ferli, en það hefur ekki alltaf verið þannig. Ég nefni deilur sem urðu hér síðast þegar hluti var tekinn eftir flýtimeðferð, þá urðu miklar deilur um ferlið.

Ég get ekki heyrt að það sé nein gagnrýni núna á ferlið. Í því gagni sem hér er lagt fram, í þessari stóru og miklu lokaskýrslu verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar 2013–2017, er mörkuð leið eftir lögunum þó svo að tala megi um ýmsa hluti, eins og ég gerði í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra þegar hún flutti málið fyrr í dag, um skipan verkefnahópa 3 og 4. Ég á enga heitari ósk, virðulegi forseti, en að um vinnuna skapist sátt, en auðvitað kann að verða ágreiningur um hvað á að fara í nýtingu, hvað á að fara í vernd og hvað á að vera í biðflokki. Það er ekkert óeðlilegt við það. En að lokum ræður meiri hluti alþingismanna. Ég vona að það geti áfram verið svo að menn reyni að tala sig til niðurstöðu.

Lögin eru ekki mjög gömul, þau eru aðeins fimm ára, en ferlið, eins og rakið er í þessari ágætu tillögu, má rekja alveg aftur til 1971 þegar lög um náttúruvernd voru fyrst samþykkt. Svo er farið í gegnum ferlið allt, frá 1. áfanga sem stóð yfir 1999–2003. Árið 1999 var skipuð verkefnisstjórn og farið í gegnum þetta. Sú verkefnisstjórn mótaði aðferðafræði og vinnureglur á grundvelli tillagna faghópanna sem fóru svo yfir gögn um virkjunarhugmyndir og mátu og skiluðu niðurstöðum til verkefnisstjórnarinnar. Í kjölfarið vann verkefnisstjórnin úr niðurstöðum faghópanna og áfram leiddi þetta til þess.

Síðan var í fyrri hluta 2. áfanga rammaáætlunar 2004–2007 frekari rannsóknir um mat og framhald í höndum þriggja manna verkefnisstjórnar þar sem Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi háskólarektor, leiddi þá vinnu. Áfram var farið í þá vinnu og hún rakin mjög vel þar til kom að stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem tóku við völdum í kjölfar alþingiskosninga í maí 2007. Þar kom fram að ljúka skyldi gerð rammaáætlunar. 12 manna verkefnisstjórn tók við í september 2007 sem, ef ég man rétt, þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, skipaði. Henni var ætlað að leiða starfið til lykta fyrir lok árs 2009. Síðan kom síðari verkefnisstjórn 2. áfanga sem lauk störfum í byrjun júlí 2011 og var undir röggsamri stjórn Svanfríðar Jónasdóttur, fyrrverandi alþingismanns og bæjarstjóra í Dalvíkurbyggð.

Árið 2011 voru loksins samþykkt lög um verndar- og orkunýtingaráætlun og eftir þeim lögum hefur verið unnið síðan. En ég ítreka að það varð ágreiningur og mikið rifrildi á Alþingi um tillöguna sem kom að ég held fyrir ári síðan. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í það. Þessi lög eru orðin fimm ára gömul og nú er komin töluverð reynsla á þau. Að mínu mati hefur komið fram ýmislegt sem þarf að skerpa betur á og gera línur skýrari til þess að eyða rifrildi og ágreiningi um aðferðafræði. Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra, sem gæti kannski svarað mér í stuttu andsvari á eftir: Hefur ekki komið til tals í umhverfisráðuneytinu að skipa þverpólitískan hóp með fulltrúum hagsmunaaðila, Landvernd og öðrum, til að fara yfir lögin í ljósi reynslunnar? Getum við ekki sest niður og komist að samkomulagi um þær breytingar sem þarf að gera, sem ég tel að þurfi að gera í ljósi reynslunnar, og reynt að setja lög sem aftur mundi skapast þverpólitísk sátt um? Leikreglurnar verða að vera skýrar. Lögin þurfa að vera það skýr að menn geti ekki túlkað þau út og suður.

Þetta vildi ég m.a. spyrja um á þeim tíu mínútum sem ég hef til að fjalla um þetta mál.

Ég ætla mér ekki að fara í tillögur verkefnisstjórnar um hverju er raðað í orkunýtingarflokk, hverju er raðað í biðflokk og hverju í verndarflokk að þessu sinni. Ef málið kemur til atvinnuveganefndar, sem ég sit í, verður málið krufið og farið í gegnum það.

Í því stóra máli sem lagt er fram á þessari stundu við sérstakar kringumstæður á Alþingi, þar sem boðaðar hafa verið kosningar eftir einn og hálfan mánuð, þá spyr maður sig auðvitað: Er hægt að vinna þessi gögn? Ég þykist sjá það á vinnunni að verkefnisstjórnin skilar tillögum til ráðherra og lögum samkvæmt kýs ráðherra að gera engar breytingar og þá þarf málið ekki nýtt umsagnarferli, það eru átta vikur og tólf vikur ef ég man rétt, þar sem aðilar geta tjáð sig um breytingartillögur sem ráðherrann kýs að gera, heldur tekur ráðherrann núna tillögurnar beint, nákvæmlega eins og þær koma frá verkefnisstjórninni, og gerir þær tillögur að sínum. Það er alveg í samræmi við lögin. Það er heimilt. Þess vegna kemur málið svona snemma inn til Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að efast um að við náum að vinna þetta á þeim stutta tíma sem Alþingi er ætlað til þess á þessu hausti, vegna þess að ef ég man rétt er það 29. núna þessa mánaðar, septembermánaðar, (Forseti hringir.) sem á að rjúfa þing og menn að fara að undirbúa kosningar. Það kemur ekki í minn hlut þá að ræða þetta mál en ég ræði það nú og vildi koma með þetta innlegg. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra, sem mér þætti vænt um að fá svar við: Er ekki full ástæða til að endurskoða lögin (Forseti hringir.) með tilliti til reynslunnar?