145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekkert sérstaklega að lengja þessa umræðu en finn mig knúna til að koma hér upp af því að ég hafði ekki tíma til að fara í andsvar áðan við hv. þm. Pál Jóhann Pálsson sem hélt því fram að ég hefði nefnt það að ekki væri um lögformlegt ferli að ræða. Það gerði ég alls ekki, hér er algjörlega um lögformlegt ferli að ræða. Það sem ég var velta upp í andsvörum mínum, bæði við hæstv. ráðherra og hv. þm. Róbert Marshall, var hver ábyrgð okkar sem stjórnmálamanna væri þegar fram kemur í umfjöllun verkefnisstjórnar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár að ekki sé unnt að eyða óvissu um villta laxastofninn. Hver er þá ábyrgð okkar stjórnmálamanna sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem það mál er í? Þar er í gildi umhverfismat, vissulega gamalt umhverfismat sem ætti að mínu viti að endurskoða, en er þó ekkert sem segir að endilega þurfi að endurskoða og liggur í kæruferli hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá velti ég því upp, í ljósi þess sem hér hefur komið fram, að ekki þykir eðlilegt að ljúka umfjöllun um þetta mál á þessu stjórnsýslustigi, en hvar á þá að fjalla um málið?

Mér finnst mikilvægt að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson heyri það sem ég hef að segja því að hann hélt því fram áðan að ég hefði talað um að ekki væri um lögformlegt ferli að ræða. Það sagði ég aldrei, heldur var ég að velta því upp hvernig við ætlum að taka á málum sem ekki er hægt að leysa á þessu stjórnsýslustigi. Mér finnst það umhugsunarefni þegar stjórnmálamönnum, hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum, er til að mynda bent á þessa ávísun hvað varðar laxinn. Þá finnst mér mikilvægt að við getum svarað því hvar eigi þá að taka á því máli, sérstaklega þegar umhverfismat er í gildi.

Þetta ætti að ræða ítarlega á vettvangi þingsins því að hér erum við með tiltekið tæki, verkefnisstjórnin er búin að skila sinni vinnu, það er enginn að gera athugasemd við það. Þau flagga þessu og benda á þetta og segja: Þetta er eitthvað sem við getum ekki útkljáð. Við tökum mark á því. En þá er fullkomlega eðlilegt að spyrja: Hvar ætlum við þá að skoða þetta mál í ljósi þess að umhverfismat er í gildi? Það á ekkert að gera umhverfismat. Hvar ætlum við þá að taka á þessu máli? Þurfum við þingmenn ekki að svara því?

Ég nefni það líka, og það er kannski annars eðlis, að hér er lagt til að Skrokkalda verði sett í nýtingarflokk. Ég hafði ekki tíma til að ræða það við hæstv. ráðherra áðan en hún kemur væntanlega upp hér í lok umræðunnar. Nú hefur hæstv. ráðherra hafið vinnu, eins og hefur komið fram, við að skoða miðhálendisþjóðgarð. Hvernig telur hæstv. ráðherra þá að þessi tillaga fari saman við vinnu sem fyrir liggur? Ég veit að hæstv. ráðherra hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hún sé fylgjandi miðhálendisþjóðgarði. Ég er mjög fylgjandi miðhálendisþjóðgarði. Við höfum lagt fram tillögu þess efnis hér í þinginu. Ég held raunar að það væri afskaplega jákvætt skref að samþykkja slíka tillögu. En segjum sem svo að hæstv. ráðherra komist á þá skoðun, þegar nefndarvinnu í hennar ráðuneyti er lokið, um að hér eigi að setja á laggirnar þjóðgarð. Þessi vinna stendur yfir núna. Eigum við þá á sama tíma að ákveða að setja þessa virkjun í nýtingarflokk og hvernig fer það saman við þá vinnu? Þetta er eitthvað sem mér finnst líka að þurfi að ræða hér í þinginu.

Mér finnst dálítið merkilegt að hlusta á hv. þingmenn, suma hverja, ræða það að hér liggi fyrir tillaga sem helst megi ekki ræða. Það finnst mér misskilningur á lögunum um rammaáætlun. Það finnst mér misskilningur á hlutverki stjórnmálamanna. Auðvitað hlýtur það að vera okkar hlutverk. Það er enginn að draga neitt úr faglegu vægi þeirrar vinnu sem liggur að baki. Ekki nokkur maður hefur gert það hér í dag. En hins vegar er það þannig í lögunum að nú kemur til okkar kasta að taka umræðuna um þessi mál, hvað við erum reiðubúin að gera að okkar tillögu í stuttu máli sagt, því að það er auðvitað samþykkt þingsins sem hefur gildi í þessu máli á endanum. Það er þingið sem ber ábyrgð á afgreiðslunni og ráðherra sem ber ábyrgð á tillögunni. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við getum, í ferli þessa máls hér í þinginu, svarað þessum spurningum.

Mun þingið geta sagt eitthvað til um það að framkvæmdarleyfi verði ekki veitt fyrr en óvissu hefur verið eytt um villtan laxastofn? Eða er það ráðherra sem getur tekið slíka ákvörðun og sagt: Ja, það verður ekkert framkvæmdaleyfi veitt? Er það eitthvað sem þingið getur bundið hendur framkvæmdavaldsins með? Ég er ekki viss um það, herra forseti. Mér finnst mikilvægt að þessir ferlar liggi allir fyrir.

Sama má segja um afstöðuna, því að það skiptir líka máli að við þurfum kannski samhliða þessari vinnu að taka afstöðu til þess hér á Alþingi hvort við viljum fara í stofnun miðhálendisþjóðgarðs eða ekki. Það er hægur vandi að gera það í ljósi þess að sú tillaga liggur fyrir og hefur fengið afar jákvæðar umsagnir. Þá er hægur vandi að taka afstöðu til þeirrar tillögu og kanna það og skoða hvort við teljum að Skrokkölduvirkjun rúmist innan slíks þjóðgarðs út frá þeim rökum sem hér hafa verið færð að það fari lítið fyrir henni í landslagi. Við þekkjum þetta. Þetta hefur margoft verið rætt hér. Teljum við að hún rúmist innan slíks þjóðgarðs eða erum við á einhvern hátt að draga úr möguleikum á honum?

Herra forseti. Þetta eru nú spurningarnar. Ég frábið mér að hér sé rætt um það að ég sé að draga úr lögformlegu gildi þessarar vinnu. Það hef ég ekki gert, hvorki í andsvörum né í ræðu. En hins vegar undrast ég það ef hv. þingmenn treysta sér ekki til að eiga efnislega umræðu um tillöguna, því að til þess erum við hér, til þess er það hluti af löggjöfinni að ráðherra mæli fyrir máli og þingið taki afstöðu til þess, það er til þess að við getum rætt málið efnislega en ekki bara um það hvort formið hafi verið uppfyllt eða ekki. Það er ekki það sem ég er að ræða. Ég vil hins vegar að við tökum efnislega afstöðu og ætlast að sjálfsögðu til þess að allir þessir þættir verði skoðaðir í vinnu þeirrar nefndar sem á endanum mun fá málið til umfjöllunar. Það liggja náttúrlega fyrir tvær tillögur um það hvaða nefnd eigi að taka málið fyrir.

Ég vil að lokum minna á það, herra forseti, að þessi ágæta tillaga var síðast send til hv. atvinnuveganefndar á þeim forsendum að hún snerist um nýtingu, þ.e. það var ein tillaga um nýtingu sem var Hvammsvirkjun, en í þingsköpum er tiltekið að í atvinnuveganefnd eigi einmitt að fjalla um auðlindanýtingu. Þar er líka tiltekið að í umhverfis- og samgöngunefnd eigi að fjalla um vernd. Hér eru ansi margar tillögur sem lúta að vernd ýmissa svæða og virkjunarkosta. Ég er því alveg hætt að átta mig á því, herra forseti, hvaða rök menn hafa fyrir því hvert málið fer til nefndar, mér sýnist það frekar vera geðþótti sem ræður því, en við getum tekið þá umræðu þegar við greiðum atkvæði um þessar tillögur. Að öðru leyti vona ég bara að umræðan í þeirri nefnd sem málið fer til umfjöllunar hjá snúist um efnisatriði málsins og snúist um að hægt sé að skoða það með óyggjandi hætti hvernig nákvæmlega við sjáum ferlana fram undan í því verði þessi tillaga samþykkt á Alþingi, hvernig við sjáum ferlana fram undan við það sem hér hefur verið bent á, raunveruleg mál sem við verðum að sjálfsögðu að taka pólitíska ábyrgð á, hvort sem það er villti laxastofninn, miðhálendisþjóðgarður eða hvað annað. Undan þeirri ábyrgð getum við aldrei skotið okkur, herra forseti.