145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:15]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og vil aðeins hnykkja á því að það sem ég hafði eftir og skrifaði eftir málflutningi hennar var það að hún spurði hæstv. ráðherra að því hvernig hún ætlaði að bregðast við og verja þessa villtu laxastofna sem eru í neðri hluta Þjórsár, hvernig hún ætlaði að bregðast við áliti og tillögum frá þessum sérfræðingum. Það var það sem ég gerði athugasemdir við, þar sem ráðherrann er að vinna þetta í lögformlegu ferli. Ég gerði einnig athugasemd við það að hv. þingmaður teldi að engar leiðir væru til eftir að þetta yrði samþykkt hér á Alþingi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort við séum ekki sammála þessum sérfræðingum um að umhverfismat framkvæmda eigi eftir að fara fram og þar muni þetta verða tekið fyrir og þar á eftir eigi leyfisveitingarnar eftir að fara fram. Það var akkúrat það sem styrinn hefur staðið um, hvort athugun á þessum villtu laxastofnum eigi heima í umhverfismati framkvæmda eða í öðru umhverfismati sem búið er.

Ég spyr hv. þingmann: Erum við ekki sammála um að þar á þessi athugun heima?