145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo að ég fái tækifæri til að skýra mitt mál fyrir hv. þingmanni þá geri ég enga athugasemd við það að hæstv. ráðherra leggi fram tillögu verkefnisstjórnar og fylgi þar með lögformlegu ferli. Það var ekki mín athugasemd. En hæstv. ráðherra ber ábyrgð á ýmsu fleiru en rammaáætlun. Hún ber ábyrgð á málaflokki umhverfismála í heild sinni og þar undir er líffræðileg fjölbreytni. Hæstv. ráðherra hlýtur því að staldra við þetta mat sérfræðinganna á því að uppi sé töluverð óvissa um afdrif villta laxastofnsins. Þá spurði ég hæstv. ráðherra hér áðan: Hvaða önnur tæki en rammaáætlun er hægt að nota?

Hv. þingmaður nefnir í andsvari við mig, af því þetta kom ekki endilega fram í svari hæstv. ráðherra áðan, að hægt sé að horfa til umhverfismats framkvæmda. En eins og ég fór yfir í ræðu minni þá liggur umhverfismat framkvæmda þegar fyrir, það er að vísu í kæruferli, eins og hér hefur komið fram, hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. En umhverfismat, þó að það liggi fyrir, felur ekki í sér neina ákvörðun. Það felur bara í sér mat á aðstæðum. Þannig að eina ákvörðunin sem er eftir er framkvæmdarleyfið. Þar erum við hv. þingmaður sammála. Það væri vissulega hægt að hafna því að veita framkvæmdarleyfi ef einhver gögn liggja fyrir.

Þess vegna spyr ég: Hver er pólitísk ábyrgð okkar? Pólitísk ábyrgð okkar sem þingmanna og hæstv. ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokki umhverfisnefndar í heild, ekki bara rammaáætlun heldur því að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika hér á landi. Hver er pólitísk ábyrgð okkar? Ætlum við að binda hendur framkvæmdarvaldsins fram í tímann — ef við erum ekki með gögn sem eyði óvissu um villta laxastofninn þá verði framkvæmdaleyfi ekki veitt?

Ég kallaði einfaldlega eftir því í ræðu minni að þessi ferill verði að vera skýr. Við stöndum frammi fyrir því hér á alþingi að við eigum að taka ákvörðun, það er búið að segja okkur að við vitum ekki hvaða afleiðingar hún hefur. Ætlum við að segja: Heyrðu, við skilum því bara (Forseti hringir.) auðu inn í framtíðina eða eru einhver önnur tækifæri sem framkvæmdarvaldið eða löggjafarvaldið eftir atvikum geta notað sér?