145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér erum við að tala um mál sem við höfum verið að rífast um árum saman. Deilur hafa verið miklar á þinginu og skoðanir skiptar. Hv. þingmaður reifaði það í ræðu sinni að þetta mál þyrfti að fara til nefndar og skoðast vel. Þetta eru þau mál sem þingið hefur skoðað hvað dýpst, þ.e. þingsályktunartillögur og önnur mál sem hingað hafa komið til þingsins. Þau hafa öll farið í gegnum mjög rækilegar skoðanir. Nú er þinginu að slota innan skamms.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Telur hún að einhver grundvöllur sé fyrir því að taka jafn flókið mál og þetta og afgreiða það á þessu þingi? Ég mundi telja að afstaða hv. þingmanns réði mestu um það af öllum þingmönnum sem hér sitja. Það er alveg hugsanlegt að það sé góð hugmynd fyrir alla að samþykkja þessa tillögu. Ég tel að enginn möguleiki sé á því að þetta fari í gegnum þingið ef menn ætla að byrja að rekja þetta upp. Ég er þeirrar skoðunar.

Ég velti fyrir mér svona upphátt í ræðustól: Væri þingið að vinna vinnuna sína ef það afgreiddi þetta með tiltölulega miklum hraða á örfáum dögum án þess að saumfara það eins og við höfum alltaf gert með þessi umdeildu mál? Hver er afstaða hv. þingmanns til þessarar spurningar: Telur hún að möguleiki sé á því að málið nái þeirri samstöðu að hægt sé að afgreiða það á þessu þingi?