145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held reyndar að það megi líka tala um fagurfræðilegt mat fagmannanna því að það er auðvitað verið að leggja ákveðið faglegt mat á fagurfræði með því að tala um landslagsheildir og annað slíkt í skýrslu verkefnisstjórnar. Það er reynt að horfa á hvar við erum með ákveðnar landslagsheildir þar sem er ósnortin náttúra og annað slíkt sem truflar ekki fagurfræðilega upplifun. Og auðvitað hefur það mat breyst. Á sínum tíma töldu Íslendingar gróin og búsældarleg tún það fallegasta af því að þá tengdu þeir fegurðina við nytjagildið sem var fullkomlega eðlileg upplifun. Síðan þróast þessi fagurfræðilega upplifun yfir í það að snúast meira um hið háleita og þá fara menn að meta í auknum mæli fossa eins og Dettifoss eða Gullfoss af því að þeir tákna á einhvern hátt hið háleita í fagurfræðilegum skilningi. Auðvitað breytir það að sjálfsögðu skoðunum allra þvert á flokka að kynnast stöðum og upplifa þá. Öll náttúruverndarumræða hefur gerbreyst með því að Íslendingar eru farnir að ferðast meira um landið og upplifa landið með allt öðrum hætti. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk gefi sér nákvæmlega þann tíma sem hv. þingmaður er að tala um til að upplifa og sjá landið sitt. Það er annað að lesa skýrslu um foss en horfa á foss eins og hv. þingmaður nefnir með Urriðafoss.

Það er vissulega reynt að leggja ákveðið fagurfræðilegt mat í skýrslu verkefnisstjórnar, en það kemur ekki í staðinn fyrir það að hv. þingmenn kynni sér málin af eigin raun og reyni að taka upplýsta afstöðu til þess fagurfræðilega mats sem þar er lagt fram og reynt að gera grein fyrir.

Það sem skiptir líka máli í því er samhengið. Við á Íslandi erum með fremur stóran hluta af okkar landi ósnortinn eins og við höfum rætt, það er miðhálendisþjóðgarðurinn sem mér er svo annt um að verði að veruleika, og það er verðmæti í sjálfu sér. (Forseti hringir.) Það er ólíkt langflestum öðrum Evrópulöndum þar sem landi er skipt niður í misstóra ferhyrninga.