145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er þetta hugleikið sérstaklega þar sem ég sé ekki fram á að verða með í atkvæðagreiðslunni um þetta mál, nema það komist til atkvæðagreiðslu á þessu þingi sem við erum sammála um að sé verulega ólíklegt og vissulega ekki mögulegt ef menn ætla að skoða þessa kosti af einhverri alvöru í nefnd. Það er einfaldlega ekki nógu mikill tími til þess á þeim stutta tíma sem við höfum.

Þá velti ég fyrir mér, þar sem ég er verðandi óbreyttur borgari, lýðræðisvinklinum, með þeim fyrirvara að ég er ekki þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi almennt að setja hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu bara vegna þess að þeir eigi eitthvað erfitt með að taka ákvarðanir sjálfir eða erfitt með að sannfæra kollega sína. Mér finnst að frumkvæðið eigi að koma frá þjóðinni. Að því frumkvæði gefnu, við sáum það t.d. í Kárahnjúkamálinu og ég held að það væri mjög líklegt ef það væri áhugi meðal almennings á því að koma að ákvarðanatökunni, þá velti ég fyrir mér hvort hægt væri að koma því fyrir á þessu stigi eða hvort rammaáætlun sé komin á það stig að ekki sé hægt að grípa þann möguleika. Ég velti þessu upp sem möguleika, þetta er alls ekki eitthvað sem ég ætla að leggja til á þessu þingi vegna þess að við viljum auðvitað hafa ferli sem ríkir sátt um.