145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var talsvert tekist á um þetta í stjórnarskrárnefndinni. Það má segja að gerð hafi verið í þeim tillögum sem hér liggja inni opnun á að hægt sé að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um tilteknar þingsályktanir. Rammaáætlun er auðvitað þingsályktun. Ástæða þess að mér hefur fundist það mikilvægt að almenningur eigi að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um t.d. afmarkaða þætti rammaáætlunar eða náttúruverndaráætlunar er að þetta eru áætlanir sem byggja á því að þar tökum við ákveðnar óafturkræfar ákvarðanir fyrir þjóðina sem lúta að landi okkar. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það sem er opnað á í þessum tillögum, sem náðist því miður ekki full samstaða um, að lagasetning verði um það hvaða þingsályktanir eigi að falla undir það að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um þær. Mér finnst það ekkert óeðlilegt miðað við þá þróun sem er orðin, að við viljum veita fólkinu í landinu meira vald. Það er t.d. hægt að gera það með þessum hætti.