145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:51]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að þakka hv. þingmönnum fyrir góða, hófstillta og efnislega umræðu um þetta umdeilda mál. Það að ég flyt þessa tillögu óbreytta er ekki hvað síst út af því að ég tel mig hvorki hafa meira vit né þekkingu en það fagfólk sem hefur komið að þessari vinnu þó að hægt sé að deila um einstakar ákvarðanir. Ég held að það sé enginn, hvorki hér í þingsal né vítt og breitt um landið, sem ekki hefur skoðun á ákveðnum kostum, hvort sem það er til verndar eða virkjunar.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa úr bók sem heitir Veröld í vanda – umhverfismál í brennidepli eftir Ara Trausta Guðmundsson. Kaflinn heitir „Hófleg nýting og nægileg vernd“, sem sagt nákvæmlega það sem við erum að fjalla um hér. Þar stendur:

„Mótsagnir náttúrunýtingar og náttúruverndar verður að leysa með málamiðlunum. Hugmyndir um að nýta ekki einhverja undirstöðuauðlind landsins eru óraunhæfar. Með hugtakinu sjálfbærni ýtum við ekki náttúrunytjum út af borðinu og tökum aðeins upp náttúruvernd. Þvert á móti. Við hættum hvorki að veiða fisk, yrkja jörðina, grafa upp möl né gera okkur mat úr hvítagulli landsins, heitu og köldu vatni. Skilyrði nytjanna er einfalt í orði en erfitt á borði. Þær skulu fara þannig fram að komandi kynslóðum hlotnist auðlindirnar sem allra minnst skertar eftir okkar daga.“

Þetta er nákvæmlega það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gat um í upphafsræðu um þetta mál.

Þegar aðalumræðan átti sér stað í þessum þingsal fyrir tæpum tveimur árum voru flestir sem töluðu við mig og voru í andsvörum sammála um að láta ferlið njóta sín. Þá þótti mönnum að það væri brot á ferlinu sem þá átti sér stað. Ég var ákveðin í því frá fyrstu dögum mínum í ráðuneytinu að reyna að vinna vel með verkefnisstjórninni, fá upplýsingar — maður stýrir ekki verkefnisstjórninni en maður getur fengið upplýsingar um það hvernig vinnan gangi. Ég var algjörlega að reyna eftir bestu getu að láta þetta ferli og þessi lög ganga sinn gang. Ég er þess vegna stolt að standa hér og mæla fyrir þingsályktunartillögu því að þannig átti ferlið að enda.

Ég ítreka enn og aftur að auðvitað koma upp margar pólitískar spurningar og menn hafa sínar skoðanir — eðlilega — á því hvað betur mætti fara.

Þingmaður nefndi Skrokköldu. Ég hef sagt það áður úr þessum stól og get endurtekið það að út frá umhverfissjónarmiðum tel ég Skrokköldu mjög hagkvæma. Þarna eru sandöldur og virkjunin er þannig að ekki munu sjást mikil ummerki þar og nánast engin. Menn eru hins vegar kannski á móti Skrokkölduvirkjun út af því hvað hún nálgast miðhálendið. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en út frá hreinu umhverfissjónarmiði mundi ég jafnvel flokka Skrokkölduvirkjun sem þá albestu og ég hika ekki við að segja að ég tæki hana fram yfir Urriðafossvirkjun.

Ég ætla ekki að fara að tala hér um ákveðna virkjunarkosti, ég hef lagt þetta í hendur á verkefnisstjórninni sem síðar skipaði faghópana. Nú er þetta komið hingað inn á Alþingi. Þannig enda verkin yfirleitt, þau enda hér. Margir hafa talað um það að auðvitað séu það þingmenn sem eigi að taka ákvarðanir og ég tek undir það. Ég geri mér grein fyrir því að tíminn er knappur, ég geri mér grein fyrir því. En þetta tímaplan hefur samt algjörlega verið haldið og meira að segja skilaði verkefnisstjórnin tillögum til mín með þriggja eða fjögurra daga fyrirvara. En 1. september var það tímaplan sett að ég mundi fá það í hendur til skoðunar, gat haft aðeins meiri tíma, lagði það þannig hingað inn á þingi eftir að hafa lesið það yfir. Tímaplanið var þannig að ef ég mundi gera breytingar mundi ég í síðasta lagi flytja tillögu hér 11.11. sem mér fannst skemmtilegur dagur út af því að það er friðardagur fyrri heimsstyrjaldarinnar. Af því ég hafði svo mikla tilfinningu fyrir því að reyna að sigla þessu máli nokkurn veginn með friði í gegn.

Ég vil taka undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni að löngun mín stendur til þess að hægt sé að klára þetta. Rök mín í því eru þau að þetta er nákvæmlega sams konar tillaga og var lögð fram hér í marsmánuði, hún hefur ekkert breyst. Hún hefur nánast ekkert breyst. Þingmenn hafa þess vegna haft hálft ár. Þeir vita nákvæmlega hvað var í gerjun. Þegar verkefnisstjórnin sendi þetta í fyrra umsagnarferli sitt í aprílmánuði þá var tillagan nánast eins og hún kom fyrir af skepnunni aftur í lok ágúst. Það er þannig. Þá var þetta sent í opið ferli. Þá voru haldnir fundir vítt og breitt um landið þar sem menn gátu mætt á fundi. Þannig að bæði þingmenn og almenningur, sveitarfélög og aðrir hafa haft þetta til þess að skoða.

Þetta er ákveðið verkfæri. Eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir kom inn á er þetta verkfæri, er mannanna verk og hefur að mörgu leyti reynst vel. Aðrir hafa talað um hvort ég mundi ekki vilja gera lagfæringu á þessum lögum, gera leikreglur skýrari. Ég held að það hafi verið hv. þm. Kristján Möller sem ræddi um það að fara yfir lögin. Um það hefur verið rætt í ráðuneytinu. Við höfum tekið eftir að það hafa komið, og ég sagði það í ræðu minni, ákveðnir hnökrar sem við sjáum og er eðlilegt að eitthvað verði gert í. Ráðuneytið er mjög meðvitað um það að setja slíka vinnu í gang. Það verður örugglega gert. Mér finnst það þá bara eðlilegt að næsti ráðherra — það verður stutt í að ráðuneytið fái nýjan ráðherra — velji slíkan hóp saman. Mér finnst ekki að á mínum síðustu dögum eigi ég að vera að gera það. En við höfum sannarlega séð það og munum taka það til meðferðar, eða ráðuneytið.

Ég veit ekki hvað ég skal segja meira. Ég get tekið undir það með Svandísi Svavarsdóttur að það er leiðinlegt — og ég hef fengið miklar fyrirspurnir hér um friðlýsingar, t.d. hefur verið reynt að friðlýsa Kerlingarfjöll. Þar með væru einir fjórir virkjunarkostir komnir í vernd. Það hefur aðeins stöðvast varðandi skipulagsmál, en ég vona sannarlega að við munum geta lokið því máli nú á haustdögum að friðlýsing Kerlingarfjalla nái í gegn.