145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[19:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra flutti hér ágætisræðu, mjög málefnalega og rökstudda og drap, held ég, á öllum þeim spurningum og álitaefnum sem varpað hefur verið inn í umræðuna í dag. Það var sannarlega góður endir á góðri ræðu þegar hún, undir blálok síns máls, sagðist vænta þess að í haust yrði hugsanlega hægt að ljúka friðlýsingu Kerlingarfjalla. Það skiptir miklu máli. Það mál var hafið í tíð ríkisstjórnar sem ég sat í sem iðnaðarráðherra á sínum tíma og hófst árið 2007.

Nú vil ég segja það alveg skýrt að þrátt fyrir mín ummæli hér og orðaskipti við formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hér skautaði eins og sannkallaður listdansari á hinu pólitíska svelli í dag, þá er ég ekki á þeirri skoðun að eitthvað komi í veg fyrir að þessi tillaga verði samþykkt. Ég held að það verði hins vegar erfitt. Ég sagði þá að það væri siður þingsins og góð vinnuregla að kafa mjög djúpt ofan í mál af þessu tagi. Hæstv. ráðherra færir sem rök gegn því þá staðreynd að málið hefur verið til umsagnar hjá sveitarfélögum og hjá samtökum og hjá ríki síðan í mars. Það er alveg rétt hjá henni. En það sem eftir er er hins vegar úrvinnslan af hálfu þingsins. Það er samkvæmt reynslunni mjög erfitt mál og tafsamt.

Ég vildi bara láta þá skoðun mína liggja hér eftir, eins og ég sagði í dag, að mér finnst alveg koma til greina að samþykkja þessa tillögu. Það yrði þá að gera það að henni óbreyttri vegna þess að ella rekst málið allt upp. En af nokkurri reynslu dreg ég í efa að það takist nema algjör samstaða náist (Forseti hringir.) um það millum flokkanna hér á þinginu. Ég er út af fyrir sig ekki andsnúinn því að reyna að leggja mitt af mörkum til þess að ná því ef þannig verkast vill, en mér hefur heyrst að vindar blási þannig í dag að það sé kannski erfitt að gera sér of miklar væntingar um það.