145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir þingsályktunartillögu þar sem leitað er heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2016, um að fella inn í samninginn þrjár gerðir sem varða opinber innkaup og gerð sérleyfissamninga.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða þrjár tilskipanir Evrópusambandsins upp í EES-samninginn og varða fyrstu tvær tilskipanirnar opinber innkaup. Helsta markmið þeirra er að tryggja gagnsæi, jafnt aðgengi og að auka samkeppni um opinbera samninga á Evrópska efnahagssvæðinu. Með þessu eru stigin skref í þá átt að nútímavæða opinber innkaup með því að einfalda innkaupaferlið og gera það sveigjanlegra. Sérstök áhersla er lögð á að auka möguleika á rafrænum innkaupum. Þessar tilskipanir mæla einnig fyrir um að við innkaup hins opinbera verði í auknum mæli heimilt að taka tillit til samfélagslegra þátta á borð við umhverfisvernd, nýsköpun og félagslega ábyrgð. Þá er litlum og meðalstórum fyrirtækjum einnig gert auðveldara fyrir að taka þátt í útboðum t.d. með því að draga úr skrifræðiskröfum, en einnig verður heimilt að skipta samningum upp í smærri einingar til að auðvelda minni fyrirtækjum að taka þátt í útboðum.

Þriðja tilskipunin felur í sér heildstæðar reglur um gerð sérleyfissamninga, en slíkar reglur hafa ekki verið settar áður á vegum Evrópusambandsins. Í tilskipuninni eru sérleyfissamningar skilgreindir með skýrum og nákvæmum hætti vegna erfiðleika sem hafa komið upp við að greina á milli sérleyfissamninga og annarra opinberra innkaupa. Þá kveður tilskipunin á um almennar reglur sem varða val og valforsendur við útgáfu sérleyfis. Þeim er ætlað að tryggja að valforsendur og önnur viðmið séu birt fyrir fram, hlutlæg og án mismunar.

Innleiðing gerðanna þriggja kallar á heildarendurskoðun núgildandi löggjafar um opinber innkaup. Fjármálaráðherra hefur nú þegar lagt fram frumvarp til nýrra laga um opinber innkaup.

Ég ætla, með leyfi forseta, að gera grein fyrir aðdraganda þessarar þingsályktunartillögu.

Þessi ákvörðun var tekin á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar hinn 29. apríl. Þar sem ákvörðunin kallar á lagabreytingar var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Á þeim tímapunkti var hins vegar liðinn hefðbundinn framlagningarfrestur fyrir ný þingmál. Hins vegar hafði fjármálaráðherra lagt fram frumvarp um opinber innkaup sem felur í sér innleiðingu á tilskipununum þremur. Af þeim ástæðum var ákveðið að fara þá leið að óska eftir heimild til afléttingar stjórnskipulegs fyrirvara í frumvarpi um innleiðinguna fremur en að leggja fram sérstaka þingsályktunartillögu. Það er vissulega óvanaleg leið en þó er fyrir henni sérstök heimild í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála.

Þegar sú beiðni var kynnt fyrir utanríkismálanefnd kom hins vegar fram eindregin áskorun frá nefndarmönnum um að farin yrði hefðbundin leið til þess að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þessari ákvörðun, þ.e. með framlagningu þingsályktunartillögu. Það var sjálfsagt að verða við þeirri beiðni. Það er hins vegar ljóst að hafa þarf hröð handtök til þess að samþykkja megi þingsályktunartillöguna á þessu þingi. Ef ekki, mun gildistaka ákvörðunar frestast talsvert. Það væri bagalegt því að mínu mati er mjög mikilvægt að sameiginlegar reglur gildi á öllu EES-svæðinu um opinber innkaup og í þessum nýju reglum felast talsverðar umbætur á lagaumhverfi á sviði opinberra innkaupa.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar.